07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Hv. 1. landsk. sagði, að ég hefði vakið máls á skýrslu landlæknis í því skyni að koma fram ávítun á hendur landlækni. Hv. þm. misskilur þetta herfilega. Ég spurðist fyrir um það, hvort n. vildi ekki taka þetta mál fyrir og hvort henni þætti ekki ástæða til neinna aðgerða. En því var svarað á þá lund, að til þess þætti ekki ástæða. Þá spurði ég, þegar ég sá, hverjum augum hv. meiri hl. n. leit á skýrsluna, hvort þeim fyndist ekki ástæða til að athuga meðferð landlæknis á þessu máli. Það var ekki nema um tvennt að ræða, annaðhvort var skylt að taka skýrsluna alvarlega og gera einhverjar ráðstafanir, eða, ef hún var ekki tekin alvarlega, þá varð ekki hjá því komizt að víta landlækni, og það var líka full þörf á að víta landlækni fyrir dráttinn, ef átti að taka skýrsluna alvarlega.

Ég vil vekja athygli á því, sem hv. 1. landsk. sagði, að hann væri mér þakklátur fyrir, að ég hefði orðið þess valdandi, að skýrslan kom fyrr fram. Í þessu felst ásökun á landlækni fyrir að hafa ekki birt skýrsluna fyrr. Ég veit ekki, fyrir hvað löngu hann var búinn að fá skýrsluna, en það er yfirlýst, að hann ætlaði ekkert að gera út af þessu fyrr en eftir nýjár. Ef hv. 1. landsk. er mér þakklátur fyrir að hafa orðið þess valdandi, að skýrslan kom fram tveimur mánuðum fyrr en landlæknir ætlaðist til, þá hlýtur hann að vita landlækni fyrir að láta hana ekki koma fyrr fram.

Hv. 9. landsk. hefir sýnilega ekkert skilið af því, sem ég sagði um þetta mál, og heldur ekki það, sem hann sjálfur var að segja.