05.11.1934
Efri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

18. mál, hagfræðiskýrslur

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er þess efnis að tryggja með l. ákvæðum fyllri hagfræðiskýrslur en hingað til hafa tíðkazt. Málið er fram komið að tilhlutun Sambands iðnaðarmanna í landinu, og hefir það verið samið af Hagstofu Íslands. Ákvæðin eru þess efnis, að gera nokkrar stofnanir og iðnfyrirtæki skyld til að gera skýrslur til hagstofunnar eftir þar til gerðu formi.

1. gr. fjallar um, að öll iðnfyrirtæki, sem skyld eru til að hafa starfsfólk sitt slysatryggt, skuli árlega gefa hagstofunni skýrslu.

2. gr. segir, að allar skipaútgerðir skuli gefa hagstofunni skýrslu um starfsemina, fólksflutninga, vöruflutninga o. þ. h.

Málið er borið fram í Nd., en allshn. Ed. hefir haft það til meðferðar og bætt inn í frv. tveim atriðum. Fyrra atriðið er þess efnis, að skipamiðlarar skuli skyldir að láta hagstofunni í té skýrslur um flutning með skipum til landsins og frá. Síðara atriðið er í 3. gr. frv., eins og það er nú orðið, og er um það, að eigendur flutningatækja, sérstaklega bifreiða, bæði fólks- og vöruflutninga bifreiða, skuli gefa hagstofunni skýrslu um alla flutninga.

Allshn. þessarar d. hefir athugað frv. og fallizt á réttmæti þess. Að vísu taldi n. fulllangt gengið í 3. gr., en eftir atvikum taldi hún þó rétt að samþ. frv. eins og það er nú.

Má e. t. v. segja, að of langt sé gengið, ef bílaeigendur úti um land, sem hafa litla flutninga, stundum ekki nema fyrir eitt heimili, eru skyldaðir til að gefa þessar skýrslur. N. sá þó ekki ástæðu til annars, að svo stöddu, en að láta þetta ákvæði haldast, því að komi í ljós, að það valdi baga, má alltaf breyta því síðar. Annars er það ekki líklegt. Hættan er frekar sú, að þetta ákvæði verði dauður bókstafur að því er snertir þá vöruflutningabíla, sem minnst eru notaðir.

Þar sem frv. er samið af Hagstofu Íslands og forstjóri hennar er því fylgjandi, vænti ég þess, að það mæti ekki mótspyrnu hér í d.