12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

8. mál, tekju- og eignarskattsauki

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Nál. var útbýtt í upphafi þessa fundar og hljóðar svo, að þrír nm. leggja til, að frv. verði samþ., en tveir höfðu ekki tekið neina afstöðu til málsins.

Hér er að ræða um tekjur handa ríkissjóði, sem ganga eiga til þess að greiða útgjöld, sem ákveðin voru á síðasta þingi. Þótt l. þessi um tekju- og eignarskattsauka væru ekki framlengd á síðasta þingi, var það ekki vegna þess, að þm. gerðu ekki ráð fyrir, að það yrði að gera, heldur var það af því, að kosningar stóðu fyrir dyrum, og þar af leiðandi var ekki talið rétt að afgr. mál, sem ágreiningi gátu valdið og bið þoldu. Var og gert ráð fyrir, að þetta þing kæmi saman fyrr en raun varð á.

Við höfum afgr. þetta mál fljótt vegna þess, að nú er verið að innheimta tekju- og eignarskattinn, og er æskilegt, að þetta frv. nái afgreiðslu sem fyrst, til þess að innheimtu skattaukans geti orðið sem mest samferða.