12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

8. mál, tekju- og eignarskattsauki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil aðeins taka það fram út af yfirlýsingu hv. þm. G.-K., að mér kemur það mjög einkennilega fyrir, að hann vill tengja þetta mál við þær aðrar till. í skattamálum, sem fram koma af hálfu stjórnarflokkanna. Er það af þeirri ástæðu, sem hv. þm. V.-Ísf. hefir þegar skýrt frá. Eins og menn vita, var gengið frá fjárl. fyrir árið 1934 og þeim útgjaldatill., sem samþ. voru á síðasta þingi, með tilliti til þess, að skattaukinn yrði framlengdur. Hygg ég, að ekki skorti viðurkenningu á því frá þeim mönnum, sem að þeim málum unnu. Finnst mér því algerlega rangt að tengja þetta frv. við það annað, sem fyrir þinginu liggur af skattamálum, og vonast ég til þess, að Sjálfstfl., sem átti þátt í afgreiðslu fjárl. fyrir 1934 og þá hefir vafalaust gert ráð fyrir, að skattaukinn yrði framlengdur, verði nú sjálfum sér samkvæmar og láti það ekki breyta afstöðu sinni, þó stjórnarskipti hafi orðið á þessum tíma. Ég sé ekki annað en allt mæli með því, að skattaukann verði að samþykkja, svo útkoma þessu árs verði eins og ætlazt hefir verið til, en það verður hún ekki, ef þetta frv. nær ekki fram að ganga. Að vísu mun frv. verða samþ., þó Sjálfstfl. gangi á móti því, en andstaða af hans hálfu í framhaldi af gerðum hans í fyrra finnst mér svo mikil ósamkvæmni, að ég vonaðist til, að hann tæki málinu vel.