10.10.1934
Efri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

30. mál, síldarbræðslustöð

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Á síðasta þingi var ríkisstj. heimilað að taka síldarbræðsluverksmiðjuna á Sólbakka á leigu. En samningar tókust ekki, hvorki um leigu, né að leigja öðrum, sem ræki verksmiðjuna. Fyrrv. atvmrh. hafði heimild til að taka verksmiðjuna leigunámi. En eftir stjórnarskiptin var stjórn síldarbræðslustöðvar ríkisins falið að sjá um framkvæmdir. Gert er ráð fyrir, að hægt sé að taka til bræðslu um 10000 til 15000 mál. Ég get ekki sagt um, hver útkoman hefir verið, en hún hefir víst ekki verið góð. Það er yfirleitt gert ráð fyrir 5000-10000 kr. upp í leiguna. Það var orðið svo áliðið tímans, að ekki var hægt að koma þessu í kring. Síldveiði var líka minni í sumar en áður. Ég ætla svo ekki að ræða frekar um þetta, en óska svo, að málinu verði vísað til sjútvn.