01.10.1934
Efri deild: 1. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

Kosning fastanefnda

Pétur Magnússon:

Ég vil leyfa mér að mælast til þess, að það sé borið undir deildina, hvort landbn. skuli ekki skipuð 5 mönnum í stað 3 í þetta sinn. Fyrir þessari till. minni hefi ég þrjár ástæður. Hin fyrsta er sú, að fyrir þessu þingi munu liggja mörg vandamál snertandi landbúnaðinn, sem vandi verður að ráða fram úr, og tel ég því nauðsynlegt þeirra hluta vegna, að nefndin sé vel mennt. Í öðru lagi verður að teljast mjög nauðsynlegt, að sem bezt samkomulag náist um þessi mál á milli flokkanna, en það tel ég óvænna, ef n. er aðeins skipuð 3 mönnum. Verði hún aftur skipuð 5 mönnum, þá er hægt að láta Bændafl. fá eitt sæti í henni, og nú stendur einmitt svo á, að með því að fá fulltrúa hans hér í deildinni inn í nefndina, þá bættist henni ágætur starfskraftur. Að sjálfsögðu hefðu stjórnarflokkarnir meiri hluta nefndarinnar, enda þótt fjölgun þessi ætti sér stað.

Þá vil ég í þriðja lagi taka það fram, að ég tel illa farið með starfskrafta þingsins, ef útilokaðir eru frá nefndarstörfum einn eða fleiri góðir og gegnir þingmenn.