15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

23. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég get fallizt á það hjá hæstv. ráðh., að gott sé að geta haft sem nákvæmastar áætlanir um, hversu ríkisútgjöldin verði mikil. Það er víðar en hér, sem óhjákvæmilegt er að hafa áætlunarupphæðir. Ef allt ætti að vera fastar fjárveitingar í fjárlagafrv., þá verður að gera breyt. á þeirri reglu að miða ríkisstyrk við framkvæmdir, sem ekki er hægt að sjá hve miklar verði. T. d. má nefna jarðræktarlögin í þessu sambandi. Það er ógerningur að sjá hve mikil útgjöld þau hafa í för með sér. Ég veit vel, að hæstv. ráðh. vill ekki, að þau séu áætluð, og ekki sé skeytt um, hvort framkvæmdirnar verða meiri en áætlunin gerði ráð fyrir eða ekki.

Hvað snertir berklavarnalögin, sem eru einhver allra stórfelldasti liður landsreikninganna, er ómögulegt að áætla svo nákvæmlega útgjöldin, að ekki raskist eitthvað meira eða minna, ekki aðeins svo nemi tugum þúsunda, heldur jafnvel hundruðum þúsunda, eins og átt hefir sér stað samkvæmt útkomu LR.

Margar upphæðir eru ekkert annað en áætlunarupphæðir, því að þau útgjöld, sem hér um ræðir, hvíla á sérstökum 1., sem ríkisstj. verður að uppfylla.

Ég held, að það hafi verið árið 1932, síðasta árið, sem landsreikningurinn nær yfir, sem það kom í ljós, að verð á innfluttum, tilbúnum áburði varð tvöfalt meira en hæstv. ráðh. hafði gert ráð fyrir í fjárl. og sem tekið hafði verið í fjárlögin sem ákvörðunarupphæð í þessu skyni. Það verður því ekki hjá því komizt að hafa þennan lið áætlunarlið. Það verður sjálfsagt hægt að komast nær því rétt, en gert hefir verið undanfarið. Hér er eingöngu um það að ræða, hvort dregið skuli úr þessari fjárveitingu eða ekki. Ef þingið vill fallast á að lækka styrkinn til áburðarkaupa, þá er eðlilegt, að þessi leið sé valin, að lækka tillagið, en ekki sú, að þingið geri áætlanir um fjárveitingu, sem má ekki breyta neitt. En þá koma til greina örðugleikar fyrir þá, sem reka áburðareinkasöluna, á því að ákveða verðið. Þeir geta ekki ákveðið raunverulegt verð á áburðinum, fyrr en hægt er að sjá, hve mikill áburðarinnflutningurinn verður. Annaðhvort verður áburðareinkasalan að ákveða verðið svo hátt, að hún sé viss um, að það sé nægilega hátt, og endurgreiða síðan mögulegan mismun, eða láta áburðinn úti með verði, sem samsvarar verði undanfarandi ára, þegar tekið er tillit til þess, að flutningskostnaður er endurgreiddur.