15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

23. mál, tilbúinn áburður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl].:

Ég vil segja fáein orð út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, sem sé því, að árið 1933 hafi tilbúinn áburður verið 43 þús. kr. dýrari en áður. Ég hefi aflað mér upplýsinga frá landbn. þessu viðvíkjandi. Samkv. þeim hafa verið flutt til landsins 2000 tonn.

Viðvíkjandi þessari upphæð frá 1932 bendir hv. þm. á, að ekki sé ávallt auðvelt að binda sig við upphæð, sem þar komi fram, því að hún geti færzt til milli ára. Þess vegna er gott að athuga landsreikningana fyrir 3. umr. Það er ekki rangt að miða við 40 þús. kr. greiðslu.

Út af því, sem hv. þm. sagði um þetta atriði, að þetta yrðu áætlunarupphæðir, vil ég segja það, að ég er ekki sömu skoðunar í því efni. Enda þótt Alþingi hafi afgr. l. um jarðabótastyrk, sem felur í sér útgjöld án þess að hámark sé sett, hafa þó síðan verið sett lög, sem fyrirbyggja slíkt. Ég lít þannig á, að hægt sé að koma við hámarksupphæð við öll lög. Og í þessu tilfelli er tvímælalaust hægt að koma slíku við. Það verður auðvelt að jafna styrk þeim, sem áburðareinkasalan fær. Sé það ekki unnt fyrirfram, verður það a. m. k. hægi eftir á með uppbótargreiðslu, eða með öðru móti.

Það er ekki sanngjarnt hjá hv. þm. að tala um, að menn taki afstöðu til þess, hvort lækka skuli greiðsluna um helming. Ef það væri samþ., yrði fjárveitingin lík því, sem nú er.

Ég vil benda á það, að undanfarið hefir verið reynt að greiða til einkasölunnar þessa fjárveitingu í fjárlögum, enda þótt ekki hafi tekizt að sporna við því, að upphæðin færi fram úr áætlun.

Vil ég svo að lokum skjóta því til hv. landbn., hvort hún gæti ekki fallizt á, að sett verði ákvæði um hámarksupphæð í þessa till. Mér sýnist ekki fjarri sanni, að miðað sé við 40 þús. kr.