15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

23. mál, tilbúinn áburður

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil þakka hæstv. fjmrh. undirtektir hans undir að hafa ákveðna hámarksupphæð styrks. Upplýsingarnar um, að 40000 kr. hámark sé hæfilegt eru frá hr. Árna Eylands, sem staðið hefir fyrir áburðareinkasölunni.

Aftur á móti hefi ég ekki heyrt útskýrt enn, hvaða brýna nauðsyn beri til, að ríkissjóður yfirleitt greiði flutningsgjöldin. Fyrst var þeirri ástæðu borið við, að kenna ætti mönnum að nota áburðinn, flutningsstyrkurinn væri einskonar auglýsing um áburðinn. Bændur vita nú um not áburðarins og nota áburðinn eins og þeir þurfa, eftir getu sinni. Sú ástæða er því ekki lengur fyrir hendi.

Innlenda áburðarnotkun er enn hægt mikið að auka, og er sízt þörf fyrir að vernda útlendan áburð gegn íslenzkum. Eftir nýafstöðnum lauslegum rannsóknum er jafnvel von um framleiðslu kalksaltpéturs o. fl. í stórum stíl með rafmagnsvinnslu og bindingu í vestfirzkan kalksand.

Ég get tekið till. aftur til 3. umr., ef landbn. tekur aftur brtt. til 3. umr.