17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

23. mál, tilbúinn áburður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.):

Ég skal ekki verða langorður um þetta mál nú. Þó vil ég segja nokkur orð út af brtt. hv. þm. V.-Húnv. Ég verð að segja það, að ég býst ekki við, að hv. flm. hafi flutt þessa till. hér í d. vegna þess, að hann sjálfur telji hana sanngjarna eða búist við, að hún verði samþ., heldur til þess að hampa henni framan í bændurna og tala um hana í flokksblaði sínu, Framsókn. Hv. þm. gerði tilraun til að sýna fram á, að með till., stj. og landbn. væri verið að lækka styrkinn frá því, sem hann hefði verið og ætti að vera samkv. 1. frá 1931, þar sem gengið væri út frá, að ekki væri lagt meira á áburðinn en 3%. En í framkvæmdinni mun alltaf hafa verið lagt á meira en 3%, og það engu síður í tíð fyrrv. landbúnaðarráðh., Þorsteins Briems, enda varð ríkisstyrkurinn þá um 43 þús. kr., eða svipaður og hér er gert ráð fyrir nú. Þó var samkv. fjárl. þá gert ráð fyrir, að hann yrði 60 þús. kr., en Þorsteinn Briem hefir ekki álitið ástæðu til að hafa hann hærri en 43 þús. Hv. þm. veit að svona till. verður ekki samþ. vegna fjárhagsaðstöðu ríkissjóðs. Ég býst við, að hv. þm. verði það kærkomið, að ég greiði atkv. móti þessari till., þar sem hann hefir alls ekki ætlazt til, að hún yrði samþ., heldur aðeins borið hana fram til þess að geta skammað Framsfl. fyrir að drepa hana, og fá þannig efni í einn dálk í blaði sínu. Annars harma ég, að landbn. skyldi ekki ákveða hámark á styrknum.