17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

23. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. taldi, að við Bændaflokksmenn hefðum ekki sérlega góða aðstöðu í þessu máli, því ráðh. flokksins, Þorst. Briem, hefði ekki veitt nema 43 þús. kr. til áburðarkaupanna. En nú hefir Sambandið haft á hendi stjórnina á þessu, svo að ef engar sérstakar breyt. hafa verið gerðar, þá hefir stj. ekkert haft með þetta að gera, svo að ef hann vill kasta steini að einhverjum í þessu efni, þá verður Sambandið að verða fyrir honum.

Hæstv. ráðh. segir, að ég flytji till. til hækkunar í hverju landbúnaðarmáli. Ég er ekki hér að flytja hækkunartill., heldur till. um að halda þeim sömu ákvæðum og hafa verið, og ég skammast mín ekkert fyrir það. Og þó að hann lýsi því yfir, að hann muni hér á þingi reyna að skerða hagsmuni bænda, þá hefi ég ekkert út á það að setja. Hann má segja, að hann sé þar að fá okkur Bændafl.mönnum vopn í hendur og heldur kannske, að sig bíti engin vopn framar. En bágt á ég með að trúa því, ef hann heldur lengi áfram að sverfa að hagsmunum bænda, að honum verði ekki einhverntíma skeinuhætt.

Í þessari brtt. minni er ekki farið fram á neitt annað en að halda þeim fjárhagslega stuðningi, sem ríkið hefir veitt í þessu efni hingað til, en geng þó ekki eins langt og 1. frá 1931 gera ráð fyrir, því að þar var gengið lengra en í l. frá 1923 og breyt. á þeim l. 1929. Ég ætlast ekki til, að greitt sé nema flutningsgjöld og kostnaður af verzlunarumsetningu, en að sleppt sé aukagreiðslum vegna flutninga á landi, þar sem hann hefir alltaf orðið lítill í framkvæmdinni, þó að heimildin væri í l. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að ástæðulaust sé annað en að miða upphæðina við 40 þús. kr., af því að þessi kostnaður hafi aldrei farið fram úr því. En ef hann hefir bjargfasta trú á því, hvers vegna er þá svo nauðsynlegt að setja þessa takmörkun í frv.? Það er af því, að hann veit, að kostnaðurinn verður meiri. Þess vegna vill hann takmarka þetta, svo að hægt sé að klípa af flutningskostnaðinum.

Því er haldið fram hér, að lagt hafi verið á áburðinn miklu meira en 3%. En ef það er, þá er mér óskiljanlegt, hvers vegna kostnaðurinn hefir orðið svona mikill fyrir ríkissjóð, því að auðséð er, að hann er talsvert meiri en sem nemur flutningskostnaði til landsins. En ef þessi kostnaður verður auk þessara 3% álagningar lagður á útsölukostnaðinn, sem nú er þá býst ég við, að verðið verði svo hátt, að bændur sjái sér ekki fært að kaupa áburðinn, þó að þeir hafi mestu þörf fyrir hann, enda veit ég það, að þótt bændur hafi dregið úr áburðarkaupum árið 1933, þá er það ekki af því, að þeir hafi ekki þurft hans með, heldur af því, að þeir höfðu ekki ráð á að kaupa hann, og síðan svalt jarðvegurinn fyrir það, og er það illt, því að það er ekki hyggilegt að rækta meira en svo er hægt að halda í sæmilegri rækt. Því er það að meðan ekki eru möguleikar til að framleiða nægan áburð innanlands, verður að hjálpa þeim, sem mega til með að kaupa hann, svo að ekki ónýtist það fé, sem varið hefir verið til ræktunar. Verði mönnum ekki hjálpað, þá er hætt við, að þeir verði fleiri og fleiri, sem ekki geta keypt þessa nauðsynjavöru þrátt fyrir aðkallandi nauðsyn. Og ef hæstv. fjmrh. ætlar að gera sig ánægðan með þetta starf sitt í þágu bændanna og haga starfi sínu í öðrum málum á svipaðan hátt, þá get ég ekki séð, að hann geti talizt fulltrúi bænda, enda er hann sá eini maður, sem lætur sér detta slíkt í hug. Hann er ekkert nema sósíalisti, enda kemur það nú vel í ljós, þar sem hann er eini maðurinn í d., sem mælir bót till. jafnaðarmannsins, sem lengst vill ganga í því að takmarka þennan styrk til bændanna. Þar rennur saman í einn farveg blóð þeirra beggja, þegar hægt er að klípa af þessum mjög svo nauðsynlega stuðningi til þess að hægt sé að halda við ræktun landsins.