17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

23. mál, tilbúinn áburður

Ólafur Thors:

Ég vil leyfa mér að tilkynna hæstv. forseta það, að Sjálfstfl. hefir boðað flokksfund í kvöld kl. 8½. Eins og hæstv. forseti veit, þá hefir það verið venja undanfarið, að Sjálfstfl. hefir haft föst fundarkvöld tvo daga vikunnar, mánudaga og miðvikudaga. Ég veit, að hæstv. forseti viðurkennir, að það er ærið verkefni fyrir flokkana, að tala um og taka afstöðu til mála, sem duglega er útbýtt í deildunum, og menn verða að ganga til atkv. um, og ég hygg, að ekki verði komizt hjá að viðurkenna, að flokkunum er nauðsyn að hafa einhvern tíma til slíkra fundarhalda. Ég leyfi mér að mælast til þess, að hæstv. forseti virði þennan rétt í verkinu og bjóði ekki til fundarhalda þau kvöld, sem eru föst fundarkvöld flokkanna.