17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

23. mál, tilbúinn áburður

Ólafur Thors:

Hæstv. fjmrh. gaf mér með sinni síðustu ræðu tilefni til að segja nokkur orð. Hann var að kasta þeim hnútum að Sjálfstfl., að flokkurinn gerði sér leik að því að bera fram á Alþingi ýms mál, aðeins til að sýnast. Ég veit enga sök á hendur Sjálfstfl. í þessu efni. Hitt veit ég, að það situr ekki verr á neinum en hæstv. ráðh. og hans flokki að vera með ásakanir í þessum efnum. Það er alkunnugt, að sá flokkur hefir lengi legið undir réttmætu ámæli fyrir það, að viðhafa ýmiskonar loddaraleik í þeim efnum.

Þá sagði hæstv. ráðh., að Sjálfstfl. hefði lýst því yfir, að hann væri á engan hátt fáanlegur til að styrkja neina nýja tekjustofna fyrir ríkissjóðinn. Mér þykir það alleinkennilegt um svo ungan mann sem hæstv. ráðh., að hann skuli hafa svo bilað minni. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan ég lýsti því yfir hér í hv. d., að Sjálfstfl. væri reiðubúinn til þess að styðja stjórnarflokkana í því að afla ríkissjóði tekna, að því tilskildu, að áður væru færð niður gjöld ríkissjóðs svo sem framkvæmanlegt væri. Þessi ummæli hæstv. ráðh. eru því alveg tilefnislaus og gripin úr lausu lofti.

Ég ætla mér nú ekki að taka verulegan þátt í þeim umr., sem hér hafa farið fram. Þó vil ég í tilefni af brtt. hv. 6. þm. Reykv. og hv. 11. landsk., með sérstakri tilvísun til hinnar skörulegu ræðu, sem hv. 6. landsk. hélt nýlega hér í hv. þd., segja það, að þrátt fyrir þau rök, sem hv. þm. Borgf. flutti hér fram fyrir því, að réttast væri að breyta ekki til um fyrirkomulag áburðareinkasölunnar vegna ágætrar forstöðu þess manns, er stjórnar henni. mun ég greiða atkv. með brtt. þeirra hv. 6. þm. Reykv. og hv. 11. landsk. Ég get í sjálfu sér engu bætt við rök hv. 6. þm. Reykv. fyrir þessari brtt., en ég vil endurtaka það, að þó við sjálfstæðismenn, fyrir rás óviðráðanlegra viðburða, verðum stundum neyddir til að hvika frá stefnu okkar í verzlunarmálum, þá er full ástæða fyrir okkur til að vera á verði í þeim efnum og víkja ekki frá okkar stefnu nema í nauðir reki.

Út af brtt. hv. þm. V.-Húnv., og sér í lagi í sambandi við ummæli hæstv. ráðh. um að fastákveða styrkinn, skal ég láta í ljós þá skoðun, að ég tel í sjálfu sér rétt, að þess sé freistað, að fastákveða þau útgjöld ríkissjóðs, sem ekki eru í fjárl., en eru ákveðin með öðrum lögum, svo þau verði miðuð við ákveðna hámarksupphæð, eftir því sem við verður komið. Þó því aðeins, að sú upphæð sé á viti byggð og sé í samræmi við önnur ákvæði, sem löggjafinn hefir sett. Nú sýnist mér, eftir þeim upplýsingum, sem komið hafa fram í d., að sú upphæð, sem tiltekin er í brtt. hv. 2. þm. Reykv., sé of lág til þess að samsvara þeirri þörf, sem henni er ætlað. En ef það er rétt, þá er hér um allverulega réttarskerðingu að ræða á þeim fríðindum, sem bændur hafa undanfarið notið. Mér finnst, ef taka á þau fríðindi af bændum, að þá megi ekki gera það með grímu fyrir andlitinu, þannig að inn í fjárl. sé sett upphæð, sem fullnægir ekki tilgangi þeim, er vakti fyrir löggjafanum, þegar þessi ákvæði voru sett. Ég verð þess vegna að segja fyrir mitt leyti, að ég hefi á engan hátt fundið, að brigzlyrði hæstv. fjmrh. í garð hv. þm. V.-Húnv. eigi við nokkur rök að styðjast, en eins og allur þingheimur hefir heyrt, þá hefir hæstv. fjmrh. borið þessum hv. þm. á brýn, að hann væri í þessu efni aðeins að sýnast. Meiningin með till. væri engin önnur en sú, að láta Framsfl. fella hana og ráðast svo á flokkinn á eftir. Ég hefi ekki orðið var við, að þetta eigi við rök að styðjast. En hitt veit ég, að „kunnugir bítast bezt“, og ég veit, að hæstv. fjmrh. hefir góða aðstöðu til að skilja, hvernig hans gömlu og nýju flokksbræðrum er heitt. Ég efast ekkert um, að þessi ummæli hæstv. ráðh. séu rétt lýsing á þeirri aðferð, sem hans flokkur hefir beitt og hv. þm. V.-Húnv. hefir haft ágæta aðstöðu til að læra sem einn af þm. þess flokks á undanförnum árum. Mér finnst ekki rétt að ásaka hv. þm. V.-Húnv. fyrir, að hann hafi aðeins ætlað að sýnast í þessu máli, en það kann að vera rétt, að í þessu máli hafi annar maður ekki ætlað að sjást, en þó hefir hann sýnt sinn innri mann, og það er hæstv. fjmrh. sjálfur.

Það er eftirtektarvert, að þegar hv. 2. þm. Reykv., sem er einn aðalvaldamaður sósíalista á þessu þingi, ber fram till., sem upplýst er, að á mjög veigamikinn hátt getur skert fríðindi bændum til handa, þá er hæstv. fjmrh. fyrstur manna - og enda sá einasti -, sem ekki vill taka á móti neinum rökum og ekki hlusta á neinn kvíðboga, sem menn hafa látið í ljós um, að þessi till. mundi skerða hag bænda. Sósíalistar hafa skipað, og hæstv. fjmrh. veit, að hann á að hlýða. Það er það, sem alls ekki hefir verið ætlað að sæist. Ég mun því fyrir mitt leyti greiða atkv. með till.