17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

23. mál, tilbúinn áburður

Sigurður Kristjánsson:

Það er út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði í síðustu ræðu sinni að mér finnst ástæða til að taka til máls, en það er aðeins örstutt aths.

Í sambandi við það, þegar hæstv. fjmrh. var að tala um yfirboð sjálfstæðismanna til þess að sýnast fyrir bændum, þá komst hann svo að orði um till. mína og hv. 11. landsk., að við berum fram með till. stórkostlega útgjaldahækkun. Þetta er alveg tilhæfulaust, og ef hæstv. fjmrh. hefir ekki lesið brtt. okkar, þá held ég, að væri rétt fyrir hann að gera það nú. Okkar brtt. við frv., sem fyrir liggur, er engin önnur en sú, að við leggjum til, að þessi styrkur haldist nokkurnveginn eins og hann hefir áður verið. Við leggjum til, að hann verði bundinn við ákveðna upphæð á hver 100 kg. Þetta gerðum við af því, að við teljum rétt, að í lögum, sem ákveða útgjöld úr ríkissjóði, sem ekki eru beinlínis miðuð við ákveðna tölu í fjárl., séu þau þannig ákveðin, að sjá mætti nokkurnveginn fyrirfram, hver upphæðin mundi verða alls, og það er hægt að fara mjög nærri um það, þegar menn hafa fyrir sér, hver innflutningur á þessari vöru hefir verið á undanförnum árum til jafnaðar, og svo er heimilað að veita vissan styrk eftir þyngdarmagni. En hér er ekki um eyris hækkun að ræða frá því, sem er í gildandi lögum, en það má vera, að það leiddi til lítilfjörlegrar lækkunar. Ég vildi ekki láta þessari fjarstæðu ómótmælt, en annars vildi ég bæta því við, að ef það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að umsetning þessarar áburðarsölu væri um 400 þús. kr., en álagningin um 59 þús. kr., þá er það nálega 18%. Mér þykir þetta ákaflega óeðlilegt og geri ráð fyrir, að það sé ekki rétt, að álagningin sé svona mikil, en ef hún væri nokkuð nálægt þessu, þá vil ég segja, að það sé full ástæða til þess að rannsaka nánar, hvernig á því getur staðið, að álagningin, sem í lögum er ákveðið, að ekki sé meiri en 3%, skuli komast svona hátt, að hún, eftir ummælum hæstv. fjmrh., á að vera orðin sexföld.

Ég þarf svo engu við þetta að bæla, en mér þykir það undarlegur ofstopi, sem hleypur í þessa hv. sósíalista hér í d., ef einhverjir aðrir en þeir minnast á landbúnaðarmál. Ég veit ekki til þess, að það sé viðurkennt, að landbúnaðurinn og bændur eigi að frelsast fyrir forgöngu sósíalista hér í þinginu. Ég veit ekki til, að þeir með framkomu sinni í garð bænda hafi aflað sér neinna sérréttinda til þess að tala einir og hugsa um málefni bænda. Hugsa ég, að frekar sé litið svo á, að þeirra stefna sé óholl og jafnvel fjandsamleg fyrir atvinnurekstur í sveitum landsins, og þess vegna er það, að ég og aðrir, sem ekki fylgjum þeim flokki, teljum okkur frjálst og skyldugt að gera till. um landbúnaðarmál, og yfirleitt málefni allra stétta þjóðfélagsins, og ekki síður þeirra, sem í sveitunum búa, því að í sveitunum er helmingur þeirra kjósenda, sem veita Sjálfstfl. fylgi.