13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

23. mál, tilbúinn áburður

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég hélt fyrst þegar ég leit á þessa brtt., að hér væri um það að ræða að draga framlag ríkissjóðs frá hallanum af flutningunum. En þó þetta sé óljóst, skildist mér við nánari athugun, að svo mundi ekki vera. (SÁÓ: Það er rétt). Mér skilst, að það hafi ekki annan tilgang en að gefa skipaútgerðunum Ríkisskip og Eimskip tækifæri til að rubba upp reikningum, er sýni raunverulegt eða ímyndað tap, sem aldrei yrði annað en handahófsverk, en gæti orðið vissum mönnum kærkomið, sem þættust finna þar tölur, sem hægt væri að telja eftir sem styrk til landbúnaðarins. Annan tilgang sé ég ekki. Ef nú er ætlazt til, að þessar stofnanir - Ríkisskip og Eimskip - smyrji einnig upp reikningum fyrir aðra aðila, sem flytja með þeim, bæði kaupmenn og einkum S. Í. S., sem flytur langmest, og vitanlega fá mikinn afslátt frá venjulegum taxta, ætti þá eins að telja það eftirgjöf. Er auðskilið mál, að þessi félög taka því aðeins slíka flutninga, að þau telji það borga sig móts við að fá þá ekki. Er auðvelt að fá önnur óvandaðri og ódýrari skip til svona flutninga, og fá þannig ódýrari fragt. Er það altítt víða erlendis. Forsrh. benti réttilega á, að hér mætti alveg eins tala um ívilnun frá ríkinu til þessara stofnana. Get ég nefnt skýrt dæmi um ívilnun til Ríkisskips, einmitt frá áburðareinkasölunni. Haustið 1932 þurfti S. Í. S. að flytja kjöt til Noregs og gat fengið til þess ódýrt flutningaskip. En svo þjóðhollri stofnun þótti ekki hlýða að skipta við erlend skip, ef annars væri kostur. En um innlend skip var ekki að ræða nema flutningur fengist til baka, því það var allt of dýrt að láta skipið sigla tómt heim. Það varð því að samningum, að Súðin flytti kjötið út og flutning fyrir áburðareinkasöluna til baka, þó þetta væri miklu fyrr á tíma en venjulegt var að flytja áburðinn. Hér var því um skýra ívilnun að ræða, sem auðvitað var ekki hægt að koma fyrir nema bæði S. Í. S. og áburðareinkasalan yrðu skaðlaus. Tel ég því, að þessum stofnunum sé enginn greiði gerður með því að skipa þeim að smyrja upp svona reikningum, svo hægt sé að fá þar einhverjar útkomur til að telja eftir. Ég greiði því atkv. móti brtt. og tel hana ófyrirsynju fram komna.