13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

23. mál, tilbúinn áburður

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hv. 4. þm. Reykv. bar brigður á það, að það væri rétt hjá mér, að veittur væri allt að 50% afsláttur af einstökum vörum. Ég get nefnt dæmi þessa, en það er fiskur, og hefi ég það eftir forstjóranum. Annars tel ég fjarri sanni að miða í þessu sambandi við flutning mjölvöru, og er miklu nær að miða við flutningskostnað t. d. á sementi, en hann er miklu lægri.

Hv. 1. þm. Reykv. gerðist nú samherji jafnaðarmannsins í þessu máli, og má þar um segja, að á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir.

Ég sé ekki, hvað Eimskipafél. kemur þessu máli við, þó að það opinbera geri það að skilyrði fyrir styrk sínum til félagsins, að það sigli eftir ákveðinni áætlun, láti í té vissa tölu farseðla o. s. frv. Það mun ekki ætlunin, að gengið sé framhjá Eimskipafél. með flutninga á þessum vörum, enda væri það óþjóðlegt. Hitt er óviðeigandi, að þessar stofnanir, Eimskipafél. og Skipaútgerð ríkisins, sem njóta alls hins bezta frá ríkinu, séu að kosta til þess sérstöku reikningshaldi að leggja til efni í eftirtölur á sérstaka stétt manna. Hv. þm. talaði um hreina reikninga, en það er mest undir því komið, að undirstöðurnar undir reikningunum séu réttar. Það er augljóst, að slíkir reikningar sem þessir yrðu byggðir á vafasömum forsendum, því að það er hæpið að miða við hinn skráða taxta, en hitt yrði og handahóf, að miða við annan taxta en hinn skráða.