13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

23. mál, tilbúinn áburður

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. forsrh. hafði það eftir mér, og gerði að sínum orðum, að þetta mál væri hégómi. Þetta er misskilningur hjá hv. forsrh. Það má segja, að ef ekki kemur til halla fyrir félögin, þá sé þetta meinlaust, en ef halli verður, þá er svo ekki.

Það, sem hér um ræðir, er náttúrlega bara reikningslegt, en upp úr því er þó mikið lagt. Ríkið væri náttúrlega hvorki ríkara né fátækara, þótt engir landsreikningar væru færðir og birtir, en það er talið sjálfsagt, og ein höfuðtryggingin fyrir því, að allt sé hreint, svo að eigi þurfi að fara í þennan og hinn til þess að fá upplýsingar, eins og hv. forsrh. sagði, að fara mætti til félaganna. (Forsrh.: Hér ræðir ekkert um birtingu). Það er að sjálfsögðu átt við, að birta eigi reikninga áburðareinkasölunnar. Það hefir verið talað um þann afslátt, er kaupmenn fái á farmgjöldunum. Kaupmenn hafa enga aðstöðu til þess að þvinga félögin í þessu sambandi. Þar er því ólíku saman að jafna. En ef félögin gera slíka samninga við prívat fyrirtæki, þá er það vegna þess, að það er hentugt fyrir þau, og að þau eru þá að tryggja með, því einhverja aðra hagsmuni sína. Ríkið er hinsvegar aðili, sem getur neytt félögin til þess að semja eins og því sýnist, og hefi ég áður bent á, hvernig það hefir haft það t. d. við bankana. Aðstaðan er því allt önnur.

Samkv. frv. borgar ríkið ekki meira en 20 kr. í flutningskostnað á tonn; ef meira verður, lendir það því á öðrum. Ég get nú vel trúað því, að stj. notaði aðstöðu sína til þess að láta félögin flytja áburðinn fyrir 20 kr. tonnið, enda þótt farmgjöldin væru raunaverulega hærri.

Hv. forsrh. og 10. landsk. hafa talið, að lítið væri leggjandi upp úr þeim prentaða taxta, því að jafnan væri samið um afslátt af honum, og falskar tölur kæmu því fram, ef miðað væri við hann. En það er fjarri því, að prentaði taxtinn sé nokkur hégómi. Hann er eins og hvert annað verð á vöru, og með þeim taxta sigla skipin sér að skaðlausu. Að sigla undir taxta er óheilbrigt og ekki gert, nema þá til þess að ná einhverjum öðrum hagsmunum. Annars er í brtt. ekki talað um prentaðan taxta, heldur er þar miðað við „venjulegt flutningsgjald fyrir álíka þunga vöru“.

Hv. forsh. var að tala um, að stj. og fleiri notuðu innlendu skipin af velvilja til stofnananna. Ég skoða nú þetta tal um velvilja og þjóðhollustu sem hvert annað raus og vitleysu. Ef skipt er við íslenzku skipin fremur en þau útlendu, þá er það vitanlega bara af praktískum ástæðum. Enda mætti það æra óstöðugan að halda úti skipunum okkur til eilífs óhagnaðar, af tómum þjóðrembingi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara hv. 10. landsk. sérstaklega. Ég er hissa á mótstöðu hans. Ef félögunum væri gert að skyldu að greiða eitthvað í þessu sambandi, þá gæti ég skilið það, en þegar hér er um það eitt að ræða, að reikningarnir séu gerðir upp, þá skil ég ekki mótstöðuna. Hv. 10. landsk. þótti þetta mikið í lagt hvað bókhald snerti. Hv. forsrh. er nú hinsvegar búinn að sýna fram á, að félögin hafa reikningana yfir þetta, svo vandinn er ekki annar en sá, að draga þær tölur, sem hér er um að ræða, út úr og láta þær koma fram á reikningum áburðareinkasölunnar.