08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

27. mál, sláturfjárafurðir

Magnús Jónsson:

Það er vitanlega ekkert þingmál, hvað ég borða, en ég dró það inn í þessar umr., af því að ég er einn af mörgum neytendum, og ég býst við, að annara reynsla verði svipuð og mín. Hæstv. ráðh. spurði mig, hvernig ég hefði getað borðað kjötsúpu árið 1930. Ég var að láta það skína út úr orðum mínum, að ég hefði einmitt ekki getað það þá. Það var einmitt lága verðið, sem gerði það að verkum, að bæði ég og aðrir keyptum þessa ljúffengu og góðu fæðu meira en áður.

Ég þykist vita, að kjötverðið hefði hækkað, þó að engar ráðstafanir hefðu verið gerðar til þess, og ef til vill orðið eins hátt og það er nú, en það hefði verið miklu betra, að það hefði hækkað þannig eðlilega, vegna þess að það er alltaf meiri og minni hræðsla hjá mönnum við opinberar ráðstafanir. Menn halda, að verið sé að ganga á sinn rétt, að það sé verið að tryggja bændum meira verð fyrir vörur þeirra með því að ganga óhæfilega á rétt þeirra, sem eiga að kaupa. Þetta vekur alltaf andúð, sérstaklega þegar það kemur frá þeim, sem menn vita, að eru fjandsamlegir þessum neytendum, og af því fylgi, sem hæstv. forsrh. á hér í bæ, veit hann, að mikill hluti bæjarbúa treystir honum ekki til að gera þeim ekkert til miska.

Út af því, sem hann sagði um þær skýrslur, sem hann hefði um kjötsöluna, væri fróðlegt að vita, hvernig þær eru. Ég hefi verið að kynna mér þetta mál, - það er erfitt verk - en mér virtist það, að hér í bæ væri minna selt af kjöti en áður, og sömuleiðis í Hafnarfirði. Ég yrði feginn, ef sú væri raunin á, að neyzlan væri nú eins mikil og áður því að þá væri það þó sýnt, að kaupgeta manna væri nokkur enn og að jafnvel skrif stjórnarblaðanna hefðu ekki getað komið þeirri andúð inn hjá þeim, að þeir vildu nú ekki kaupa eins mikið kjöt og áður. Annars er ég hræddur um, að þessar skýrslur séu ekki sem áreiðanlegastar. Ég býst við, að hæstv. ráðh. hafi þær frá Sláturfél. Suðurlands, og ég hafi frétt, án þess að ég hafi sérstaklega lagt upp úr því, að þar hafi nú verið keypt fyrir álíka margar krónur og áður hefir verið, en það sýnir auðvitað, að vörumagnið er minna en áður.

Hæstv. ráðh. sagði, að blöð sjálfstæðismanna hefðu gert allt, sem þau hefðu getað, til að draga úr kjötsölunni. Þetta er sú dæmalausasta staðleysa. Það getur verið, að komið hafi einstöku andvörp frá mönnum út af því, að þeir geti ekki keypt þessa vöru, en hitt er það aumasta öfugmæli og fjarstæða, að blöð Sjálfstfl. hafi gert allt, sem þau hafa getað, til að draga úr kjötsölunni. Nei, það eru blöð stj., sem hafa gert allt til að vekja hér andúð gegn þessu, þótt það hafi ekki tekizt. Ég býst við, að þeir hafi með þessum skrifum sínum ætlað að vekja andúð hjá sjálfstæðismönnum gegn þessum ráðstöfunum, og að þeir hafi þegar í upphafi verið svo vissir um, að sér tækist það, að þeir hafi farið að skrökva þessu upp. Þegar verið er að lýsa Rvíkingum þannig, að þeir geti farið út á Austurvöll og bitið þar gras, og þegar Nýja dagbl. flutti aðrar eins greinar og það flutti út af ekki stærra atriði en viðtalinu við Sigurjón á Álafossi, þá verður ekki séð, að slíkt eigi að vera til annars en að vekja andúð hér, og þá má ímynda sér, hvernig það hefði verið notuð, ef einhver andúð hefði nú komið fram.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að mikil hætta sé á, að þetta frv. verði ekki samþ., þar sem 2 fyrrv. ráðherrar hafa nú lýst því yfir, að þeir hefðu gefið út slík bráðabirgðalög, ef þeir hefðu farið með völd. Ég mun því vera hér einn til andmæla. En mig undrar á því, að hv. form. Alþfl., sem á sæti í þessari d., skuli ekki hafa fundið til með sínum flokksmönnum, sem eru ekki síður en aðrir í þeim hópi, sem hafa orðið að neita sér um þessa ágætu fæðu fyrir þessi l., en hann er sennilega svo bundinn Framsókn í þessu máli, að hann má ekkert segja. Ég hefði gaman af að vita, hver afstaða hans er í þessu máli og hvort hann ætlar að láta mig stand, hér einan uppi til að túlka málstað þeirra, sem verð, að fá sínar lífsnauðsynjar eins ódýrt og auðið er.