08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

27. mál, sláturfjárafurðir

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki vera margorður. En mér þóttu undarleg þau ummæli hæstv. forsrh., að það hefði ekki mikið að segja, hvort einstakir þm. Sjálfstfl. væru með þessu máli eða móti. Mér skildist á honum, að hann teldi ekki þurfa atkv. þeirra með. Ég held mér sé óhætt að segja, að slíkan derring hefi ég aldrei heyrt á þingi. Ég hélt, að hæstv. ráðh. þætti vænt um, að sem flestir fylgdu málum þeim, sem hann ber fram, og ég skil ekki þessa framkomu hans, nema því aðeins, að hann sé að reyna að koma upp óánægju í kringum þetta mál. En ég mun fara eftir því í afstöðu minni til mála, hvernig mér lízt á þau, án tillits til vinsælda hæstv. ráðh. - Hann upplýsti það í ræðu sinni, að samkv. skýrslum hefði kjötsala ekki minnkað í Rvík í haust. Og þó segir hæstv. ráðh., að Sjálfstfl. hafi gert allt það, sem í hans valdi stóð, til þess að spilla fyrir sölunni. Það mætti merkilegt beita, ef flokki, sem hér í bæ er í hreinum meiri hl., hefði ekkert orðið ágengt í þessa átt, hefði hann lagt eins mikið kapp á það og hæstv. ráðh. segir. Annars er þetta tal um andstöðu Sjálfstfl. við mál þetta tómar ýkjur. Fyrir nokkru skrifaði formaður Sjálfstfl. blaðagrein um þetta mál, og ég er viss um, að engum tekst að lesa út úr henni nokkurn óvildarhug til framgangs málsins. Og hæstv. ráðh. kemst í beina mótsögn við sjálfan sig, þegar hann í öðru orðinu leggur slík ósköp upp úr nokkrum blaðagreinum um þetta mál, en segir í hinu, að blöðin hafi engin áhrif haft á framkvæmd þess. Og flest er nú til týnt, þegar kjötát Sigurjóns á Álafossi og hvalkjötið er dregið inn í umr. sem einhver stór atriði. Helzt lítur út fyrir, að hæst. ráðh. telji það saknæmt að leiðbeina fólki um matreiðslu hvalkjötsins. (MJ: En að stj. skyldi ekki með bráðabirgðalögum banna forsjóninni að senda hvalina á svona óheppilegum tíma!). Ja. það er nú eftir að vita hvort forsjónin hefði farið eftir því! En viðvíkjandi þessari óvild, sem sjálfstæðismenn eiga að hafa á framgangi þessa máls, skal ég ennfremur upplýsa, að á fundi, sem sjálfstæðisfélögin hér í bæ héldu fyrir skömmu, og þetta mál var til umr., kom enginn óvildarhugur fram, heldur þvert á móti. Allir, sem töluðu, kváðust vilja stuðla að því, að bændur fengju sanngjarnt verð fyrir vöru sína. Aftur á móti kom fram ákveðin andúð gegn ósvífni þeirri, sem blöð Framsfl. hafa sýnt bæjarbúum með skrifum sínum um þetta mál, en mönnum kom saman um, að ekki væri rétt að láta bændur landsins gjalda þeirra skrifa. - Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann treysti ekki Búnaðarfélagi Íslands til þess að eiga fulltrúa í n., og færði hann það til, að það væri ekki verzlunarstofnun fyrir bændur. Ég sé ekki, að þetta sé annað en fyrirsláttur, enda vita allir, að ástæðan er sú, að stjórn Búnaðarfélags Íslands er andstæð núv. stjórn og flokkum þeim, sem hún styðst við. - Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um það, að þetta mál getur ekki orðið flokksmál. En hitt þætti mér trúlegra, að menn skiptust eftir héruðum með því að móti. Auðsætt er, að l. þessi verða ekki jafnvinsæl um land allt. Ég er sannfærður um, að skýrslur þær, sem hv. þm. N.-Ísf. gaf um þetta mál úr sínu kjördæmi, eru réttar. En hitt er mér ljóst, að mál sem þetta má ekki dæma eftir smáagnúum, sem á því kunna að finnast, heldur eftir því gagni, sem það er líklegt til þess að gera yfirleitt. Mér skildist hæstv. ráðh. neita því, að kjötverð myndi hafa hækkað í haust, þótt engar sérstakar ráðstafanir hefðu verið til þess gerðar. Má það undarlegt heita, ef kjötverð hefði ekki hækkað að sama skapi og önnur matvara. Og skrá sú, sem hæstv. ráðh. las um kjötverð hér í bænum á undanförnum árum, sýndi einmitt, að verðið hafði ýmist hækkað eða lækkað, enda fer það auðvitað eftir verðhlutfalli annara matartegunda.