08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Baldvinsson:

Ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta það, sem hv. l. þm. Reykv. sagði um kjörfylgi Alþfl. í sveitunum við kosningarnar í vor. Þess var nú raunar varla af honum að vænta, að hann gæti fengið sig til að fara rétt með kosningatölur Alþfl. þá, enda mun það öllum ljóst, að það muni fremur vera í samræmi við óskir hans og vonir fyrir kosningarnar, heldur en staðreyndirnar eftir á, er hann segir, að Alþfl. hafi ekki fengið nema 10-20 atkv. á frambjóðanda í sveitakjördæmunum. Alþfl. fékk ekki svo fá atkv. í einu einasta kjördæmi, en víða 10 og 20 sinnum meira atkvæðamagn og þar yfir. (MJ: Ætli ekki hafi verið eitthvert kauptún í þeim kjördæmum?).