19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég á hér nokkrar brtt. á þskj. 92 og vil í stuttu máli gera grein fyrir þeim.

1. brtt. fer í þá átt, að sauðfjáreigendum sé frjálst að slátra fé sína heima og selja milliliðalaust í einkaviðskiptum, en auðvitað ekki til almennings á opnum markaði. Ég vil taka það skýrt fram, að hér er aðeins átt við einkaviðskipti, því að mér virtist sá misskilningur koma fram hjá hæstv. forsrh., að hér væri átt við hverskonar verzlun með kjöt.

Ég hefi engin skynsamleg rök heyrt færð fram fyrir því, að varna mönnum þessara viðskipta. Hæstv. forsrh. hélt því fram, að þetta myndi valda röskun á því skipulagi, sem kjötsölulögunum væri ætlað að byggja, og verða til þess, að þeir greiddu ekki verðjöfnunargjöld af því kjöti, er þeir seldu á þennan hátt, né hlýddu verð verðlagsákvæðum. Ég skal nú auðvitað ekki fullyrða, að ekki gæti komið fyrir, að menn reyndu eitthvað lítilsháttar að fara í kringum lögin, ef þetta væri leyft, t. d. með því að reyna að smeygja sér undan verðjöfnunargjaldi, en ég er þess fullviss, að lögin yrðu brotin í miklu ríkari mæli, ef öll einkaviðskipti eru skilyrðislaust bönnuð í þeim. Og það verður erfitt fyrir hæstv. forsrh. að færa bændum heim sanninn um það, að það sé glæpur, þótt þeir slátri kind og kind heima og verki kjötið á sérstakan hátt og selji öðrum mönnum. Ég held, að réttartilfinning þjóðarinnar segi henni ekki sjálfkrafa, að slíkt sé glæpur.

Hæstv. forsrh. sagði, að ef bændum yrði leyft þetta, leiddi það til þess, að meiru og meira af kjöti yrði selt milliliðalaust. En þá má benda á það til andsvara, að hingað til hefir verzlunin verið frjáls, og þó hverfandi lítill hluti kjötsins verið seldur milliliðalaust, og sú sala ávallt farið minnkandi. En hitt er rétt, að einstaka menn hafa jafnan selt milliliðalaust nokkuð af sérverkuðu kjöti, einkum reyktu, sem hefir aflað sér álits og því selzt fyrir hærra verð en ella. En hvaða líkur eru fyrir því, að viðskiptin hneigist meira í þessa átt? Ég held, að tilhneiging manna til slíkrar verzlunar ætti einmitt að vera minni nú, þar sem þeim er tryggt lágmarksverð. Ég vil heyra einhver rök fyrir því, að menn fari að hlaupa með kjöt sitt fram hjá sláturhúsunum til þess að selja það öðrum fyrir lægra verð.

Þá sagði hæstv. forsrh. einnig, að þetta myndi leiða til þess, að framboðið yrði óviðráðanlegt. Í hverju ætti það að liggja? Ekki myndi kjötsölumagnið sjálft vaxa. En kjötverðlagsnefndin hefir eftir sem áður heimild til þess að takmarka kjötflutning til hvers sölustaðar, hvort sem kjötið er selt af sláturhúsum, verzlunum eða einstaklingum.

Ég get fullyrt, að fjöldi bænda sættir sig mjög illa við það, að þeim sé skilyrðislaust bannað að selja kjöt sitt sjálfir. Á fjórum þingmálafundum í Rangárvallasýslu var samþ. mótatkvæðalaust áskorun um að breyta á Alþingi þessu ákvæði bráðabirgðalaganna. Þessar samþykktir hefi ég hjá mér hérna í skúffunni, ef hv. þdm. óska að sjá þær.

2. brtt. er sjálfsögð afleiðing af 1. brtt. Hún tiltekur nánar, hvernig kjötframleiðandi eigi að haga sér og hvernig hann eigi að greiða verðjöfnunargjald, sem ég ætlast auðvitað til, að hann greiði. Hæstv. forsrh. virtist ekki vera hræddur um, að ákvæði laganna eins og þau eru nú verði brotin, og er því æskilegt að heyra hvaða ráðstafanir stj. ætlar að gera til þess að tryggt sé, að lögin verði haldin.

Þá er 3. brtt., sem fer fram á það, að stj. sé heimilt, eftir tillögum kjötverðlagsnefndar, að undanþiggja verðjöfnunargjaldi þá framleiðendur, sem eiga við sérstaklega erfið kjör að búa. Ég skal þó ekki segja, að þetta verði gert nema verðjöfnunargjaldið verði nægilegt til að jafna verðmismuninn á útfluttu kjöti og því, sem selt er á innlendum markaði. En reynist það meira, er full ástæða til þess, að sú leið verði farin, sem lögð er til í brtt. minni. Ef til vill má segja, að þeir framleiðendur, sem eru svona sérstaklega illa staddir (eigi mjög rýrt fé eða þ. h.), ættu að hverfa til annarar framleiðslu, en slíkt tekur ávallt nokkurn tíma. Þeir, sem ætla sér að hverfa frá kjötframleiðslu, þurfa t. d. næstum ávallt að auka sitt ræktaða land, og meðan á þeirri breytingu stendur, er rétt að hafa opna leið í löggjöfinni til að létta undir með þeim.

Síðasta brtt., við 10. gr., er komin fram til þess að kveða skýlaust á um það, að kjötverðlagsnefnd hafi óskorað vald til þess að takmarka kjötflutninga á hverjum tíma á hvern sölustað. Þetta er ekki nógu ljóst í frv., en þetta er óhjákvæmilegt skilyrði fyrir verðjöfnunargjaldinu. Þessi takmörkun á kjötflutningunum til markaðssvæðanna til að varna of miklu framboði er einmitt það, sem bændur þeir, sem eru í grennd við Rvík, fá fyrir þá 6 aura af hverju kílói, sem þeir greiða í verðjöfnunarsjóð.

Ég vil að lokum láta þá ósk í ljós, að menn líti á þetta mál með sanngirni, en láti ekki flokkapólitík ráða afstöðu sinni.