19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég skal með nokkrum orðum svara þeim aðalaðfinnslum, sem komið hafa fram. - Það er um svona lög að segja í heild, að þegar á að ná einhverju takmarki með lögum eins og þessum, þá fer ekki hjá því, að þegar á að breyta skipulagi, sem verið hefir áður, þá komi fyrir ýmsir annmarkar. Það, sem bent hefir verið á af þeim hv. þm., sem hér hafa talað, er í aðalatriðum smávægilegt, eins og það, að einn bóndi hefði orðið að reiða dilka yfir á og að þeir hefðu af þeirri sök marizt. Það þýðir ekki neitt, þegar verið er að koma á heildarskipulagi til þess að ná vissu takmarki, sem er mikils virði, að setja fyrir sig, þó að einhver galli kunni að vera á því í framkvæmdinni og gera það að ásteytingarsteini, eins og mér virtist koma fram, einkum hjá hv. þm. N.-Ísf.

Ég álít, að það þýði ekki neitt, þó að þannig standi á eins og nú í haust, að það komi fram dálítil vandkvæði á að koma sláturfénu í sláturhús, að gera breytingu á þessum lögum, sem eingöngu sé miðuð við örfá tilfelli, ef það að öðru leyti getur orðið til þess að skemma lögin í heild meira en græðist, þannig að það verði í raun og veru tap við breytinguna miklu meira en ávinnst fyrir þessi fáu einstöku tilfelli. A. m. k. er það þannig, að þeir fulltrúar, sem skipuðu þá n., sem samdi þessi lög - og hafa þeir allir meiri og minni reynslu á þessu sviði - urðu sammála um, án tillits til flokka, að leggja til, að lögin yrðu samþ. eins og þau nú liggja fyrir, og ekki hefir komið frá þeim ósk um, að einu einasta atriði yrði breytt.

Þetta var aðeins almennur inngangur um það, sem hér er verið að ræða um. Svo skal ég með nokkrum orðum minnast á einstök atriði í þessu máli.

Það er þá fyrst, sem hv. þm. N.-Ísf. minntist á till., sem ég áleit, að gæti komið til athugunar í n., þegar málið verður tekið fyrir á ný, að gefa einstökum mönnum undanþágu, ef sérstaklega stendur á, að þeir eiga erfitt með að koma sláturfénu til sláturhúsa. Sú röksemd, sem hann færði fyrir þessu, var eins og ég býst við að hv. dm. hafi tekið eftir, að þeir menn, sem ættu sæti í kjötverðlagsnefndinni. væru svo ókunnugir víðsvegar úti um land, að þeir gætu ekki skorið úr um það, hvenær ætti að gefa þessa undanþágu. Aðra röksemd færði hann ekki fyrir þessu. En ég staðhæfði, að þeir menn, sem eiga æti í n., væru allra manna kunnugastir öllum staðháttum hér í þessu landi, og það staðhæfði ég án þess að nefna nokkur nöfn; en sumir þessara manna eru gagnkunnugir af ferðum sínum um allt land og vita því mæta vel um alla staðháttu, svo þessi röksemd hefir ekki við neitt að styðjast. En það kom líka fram í þessu sambandi; það, sem hann á við með stofnun 12 manna sölufélags, er, að þessir menn gætu komizt hjá að reka sláturfé til sláturhúsa. Með þessari undanþáguheimild, ef gert er ráð fyrir, að nefndarmennirnir séu sæmilega kunnugir, er því náð því takmarki, sem þarf að ná, að fyrirbyggja, að menn, sem sérstaklega stendur á fyrir, sem eru aðeins örlítið brot af framleiðendunum, að þeir verði fyrir þeim óþægindum, sem þarna ræðir um.

Þá minntist þessi sami hv. þm. á, að það, sem sérstaklega vekti fyrir sér og hv. 2. þm. Rang., væri að fá milliliðalausa verzlun. Ég vil í því sambandi benda hv. þm. á, að hingað til hefir sala á sláturfjárafurðum aðallega farið fram í gegnum sláturhús, og hefir ekki, eftir því sem mér er kunnugt, sérstaklega verið kvartað undan því. En ég vil bara benda á það, sem hefir á unnizt við þetta skipulag, og í því sambandi get ég um leið svarað hv. 10. landsk. Hv. 10. landsk. minntist á, að eftir nýútkomnum hagskýrslum um smásöluverð á kjöti hér í Rvík væri ekki að sjá, að hagsmuna bændanna hefði verið gætt. En því til andsvara má benda báðum þessum hv. þm. á, að smásölukostnaður hér í Rvík hefir verið færður úr 35% niður í 15%, eftir því sem ég fæ upplýsingar um hjá n., og þetta kemur vitanlega fram í hagskýrslunum eins og þær nú liggja fyrir, og hefir því ekki unnizt lítið á í því að spara þennan milliliðakostnað, sem þessir hv. þm. telja sig vera að berjast fyrir, að verði afnuminn. Það hefir því mikið á unnizt frá því, sem var, enda sáu menn ástæðu til þess að kvarta undan því ástandi, sem var áður en skipulagið komst á.

En viðvíkjandi milliliðalausu verzluninni er það að segja, að það kemur einkum fram hjá hv. þm. N.-Ísf., að vöruskipti hafi verið framkvæmd að talsverðu leyti í hans sýslu. En nú er það upplýst mál, að vöruskiptaverzlun hefir verið leyfð af n.

Viðvíkjandi sölu þeirri, sem hv. 2. þm. Rang. minntist á, og að hann taldi, að ég hefði ekki fært nægileg rök fyrir því, að það ætti að fella þær brtt., sem hann hefir lagt fram hér í d., þarf ég að fara örfáum orðum. Þessi hv. þm. minntist á, að það væri ekki ætlun sín, að kjöt væri almenningi boðið, þó að leyfð yrði milliliðalaus verzlun. En ég verð að segja það, að ef leyfð er þessi verzlun utan við sölusamtökin, þá álít ég, að ákaflega erfitt verði að skera úr um það, hvort samið hafi verið um þessa sölu fyrirfram eða að kjötið hafi verið boðið fram á sama tíma og það var selt, og ég fæ ekki séð, að hægt verði að komast hjá því að álykta sem svo, að um leið og þessi milliliðaverzlun er leyfð, hljóti afleiðingin að verða sú, að þegar bændur koma með fé sitt á markaðinn og tilkynna kjötverðlagsnefndinni, að þeir ætli að selja það beina leið, þá verði ekki hægt að selja, því að svo getur farið, að framboðið verði meira en eftirspurnin á hverjum einstökum tíma. Hv. 2. þm. Rang. minntist einnig á, að kjötframboðið í heild myndi ekkert vaxa fyrir það, þótt þessi söluaðferð væri leyfð. Það er rétt, að magn þess kjöts, sem selt er á hverju svæði, verður ekkert meira, þó að það sé selt með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í lögunum. En það er annað atriði, sem ekki er hægt að ráða við, og það er framboðið á kjötinu á hverjum einstökum tíma á því tímabili, sem kjötmarkaðurinn stendur yfir. En nú er það svo, að þau félög, sem selja kjötið, segja til um það, hve mikið af kjöti megi koma á markaðinn á hverjum tíma. Annars hygg ég, að hv. þm. hafi aðallega átt við, að leyfilegt væri að selja milliliðalaust reykt kjöt, og ég skal út af því upplýsa, að leyfð hefir verið af verðlagsnefndinni milliliðalaus sala á hangikjöti, og ég sé ekki ástæðu til að ætla, að því verði breytt frá því, sem nú er. Ég hygg, að þetta hafi einmitt verið aðalatriðið, sem vakti fyrir þessum hv. þm., og þá er því til að svara, að einmitt þetta fyrirkomulag hefir verið leyft hingað til, og ég býst ekki við, að n. sjái ástæðu til að breyta því.

Þá minntist þessi sami hv. þm. á, að það mundi verða erfitt fyrir mig sem dómsmrh. að halda uppi þessum lögum og sjá um, að þeim verði fylgt; það mundi verða erfitt að fá bændur til þess að líta svo á, að það væri glæpur að selja kjöt án þess að fara eftir þeim skipulagsreglum, sem settar eru í þessu landi. Um þetta vil ég segja, að ég hefi það fyrir satt frá kjötverðlagsn., að það muni ekki verða miklum erfiðleikum bundið að framfylgja þessum lögum. Það er að vísu með þessi lög eins og öll önnur lög, að þau eru brotin að einhverju leyti, en það er ekki af því, að menn út af fyrir sig líti á það sem glæp að selja kjöt utan við skipulagninguna. En bændur, sem undir þessu skipulagi búa, vita það mæta vel, að þeim er gróði að þessu skipulagi, og við eigum hér við svo þroskað fólk, að það skilur, hvað skipulagningin er fyrir það, og þess vegna fylgir það lögunum. Það veit, að ef höggið er skarð í þessi lög með því að brjóta þau, þá missa framleiðendur þann hagnað, sem þeir hafa af þeim, og þess vegna er tiltölulega létt að framfylgja þessum lögum.

Viðvíkjandi þeirri spurningu, sem hv. 2. þm. Rang. bar fram um það, hvaða ástæðu ég hefði til þess að álíta, að kjötsalan mundi leggjast meir og meir í milliliðalausan farveg, ef bein viðskipti yrðu leyfð, þá er því að svara m. a. með því, að um leið og farið yrði að leyfa þessi viðskipti yrði erfitt að fylgjast með í því, hvaðan það kjöt kemur, sem selt er á hinum ýmsu stöðum. Það er enginn efi á, að það koma þannig, ýms viðfangsefni í sambandi við beina sölu á nýju kjöti, sem gera miklu erfiðara að framfylgja lögunum og halda skipulaginu uppi í heild heldur en annars mundi reynast. Og þá er alls ekki loku fyrir það skotið, og meira að segja mjög líklegt, að ýmsir framleiðendur mundu vilja selja kjöt ef til vill á öðrum tíma, t. d. seinni part sumars, þegar kjötverð er hærra. Fjöldi manna vildi kannske selja kjöt á þeim tíma, og þannig yrði óviðráðanlegt, hvernig framboðið yrði, og það leiddi óhjákvæmilega til þess, að sama fyrirkomulagið yrði eins og áður, að of mikið kjöt flyttist á markaðinn og þess vegna hætta á verðfalli. Því að þegar of mikið framboð er, þá er erfitt að ráða við, að ekki sé farið á bak við lögin og kjötið - eða hvaða vara sem er - verði selt undir því verði, sem sett er, og þegar framboðið er orðið svo mikið, að ekki er hægt að koma kjötinu út, þá liggur það undir skemmdum.

Ég held því, að öllu þessu athuguðu, að þessar brtt., sem hér liggja fyrir, verði frekar til þess að gera á ýmsan hátt erfiðara um framkvæmd þessara laga. Þær eru bornar fram til þess að skera af ýmsa annmarka, sem eru tiltölulega smáir í samanburði við ávinninginn af þessum lögum. Það eru annmarkar, sem má sníða af, þegar fengin er meiri reynsla um framkvæmd þessara laga. Ég held því, að það yrði frekar til hins verra, og enda, áreiðanlega, ef sumar af þessum brtt. yrðu samþ., og af þeirri ástæðu leggst ég á móti þeim.

Viðvíkjandi brtt., sem hv. 2. þm. Rang. ber fram við 10. gr. frv., þá lít ég svo á, að þessi heimild sé tvímælalaust fyrir hendi, því að í 10. gr. stendur: „kjötverðlagsnefnd gerir þær ráðstafanir, er hún telur þurfa til þess, að innlendi markaðurinn notist sent bezt“. Víðtækari getur heimildin ekki verið. N. hefir heimild til þess að gera þær ráðstafanir, sem hún telur þurfa til þess, að innlendi markaðurinn notist sem bezt, og í því felst, að hún hefir leyfi til að flytja kjöt á milli verðlagssvæða, því að annars notaðist kjötmarkaðurinn ekki upp á það bezta, ef kjöt lægi á einu verðlagssvæði óselt, en væri ekki til á öðru. (PM: Um þetta hefir verið deilt). Ég held, að hv. þm. geti séð, að þetta orðalag er svo víðtækt, að það felur í sér þessa heimild.

Hv. 10. landsk. þarf ég ekki að svara miklu, í raun og veru ekki neinu, af því að ég hefi svarað honum áður. Það var þetta sama viðvíkjandi Búnaðarfélaginu, en því hefi ég svarað áður og vísa hér með til þess. En hinsvegar minntist hann á smásöluverðið. En það hefir verið af því, að hann hefir ekki athugað, að milliliðakostnaðurinn hefir lækkað úr 35% og niður í 15%, og af því stafar, að skýrslurnar sýna ekki eins hátt smásöluverð eins og ella mundi vera. En viðvíkjandi verðlaginu er það að segja, að það sýnir nokkuð greinilega, að n. hefir ratað meðalhófið, því að af sumum flokkum hefir verið fundið að því, að hún hafi sett verðið of hátt, en hv. 10. landsk., sem felur sig forsvarsmann bændanna, telur, að verðlagið hafi verið sett of lágt. Svona má lengi um það deila, en ég býst við, að flestir séu sammála um, að n. hafi ratað meðalhófið mjög vel í þessu máli.