19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Auðunn Jónsson:

Það er aðeins stutt aths., þó að reyndar hefði ég þurft að halda dálitla ræðu út af því, sem fram hefir komið. - Ég skil ekki þá endurtekningu hjá hæstv. ráðh., er hann talar um að leggja málið fyrir n. á ný. Landbn. er búin að skila áliti um málið. Það hefir ekki verið venja að láta frv. á þessu stigi máls fara til n. aftur. Auðvitað getur það komið til mála, ef brtt. við það kemur fram til 3. umr.

Hæstv. ráðh. hefir ekki svarað fyrirspurn minni um það, hvort selja megi lifandi fé til slátrunar eða ekki. Ég vænti þess að fá skýrt svar um þetta frá honum áður en umr. er slitið.

Um það, að n. hefði sérstaka kunnugleika og þá sérstaklega að einn maður í n. sé kunnugur víða á landinu, skal ég upplýsa það, að einn þessara nm., sá, sem hæstv. ráðh. mun eiga við, er hann talaði um einn þeirra sem sérstaklega kunnugan á landinu, hann sagði bændum í Ísafjarðarsýslu, að þeir í þessu tilfelli þyrftu ekki annað en að senda skeyti til kjötverðlagsn., til þess að fá leyfi til að slátra fé. sínu heima, ef þeir hefðu erfiða aðstöðu til að reka það í sláturhús. Hann taldi, að þetta mundi fást og orðaði fyrir þá beiðnina um þetta til kjötverðlagsn. En hvað skeður? Eftir 2 daga fá þeir nei. Svona gafst þá ráð mannsins, sem kunnugleikana hafði. Hann hafði nefnilega ekki ráðin í n. í þessu tilfelli.

Hæstv. ráðh. sagði, að hvorki höfundar frv. né n., sem um lagasetningu þessa hefir fjallað hafi borið það fram, að almenn ósk hafi komið fram um breyt. á því. Ef ekki á að breyta neinum l. hér á hinu háa Alþ., nema þeir, sem búa frv. til, óski eftir breyt., þá verð ég að segja, að það sé bezt að leggja engin frv. fyrir þingið, því að það væri þá tilgangslaust. Og ég get hugsað mér, að þannig sé það þá með þessi bráðabirgðal., að þeim eigi helzt ekki að breyta, jafnvel þó að rökin stangi aðra eða þriðju hverja grein þessa frv. Hæstv. ráðh. sagði, að maður mætti ekki setja það fyrir sig, þótt einhverjir gallar væru á l. En til hvers er verið að koma hér fram með frv., ef hið háa Alþ. má ekki bæta úr göllum á þeim? Ég hefi með ótvíræðum rökum bent á stóra galla á frv. að því er snertir stór svæði á Vesturlandi, þar sem í frv. ræðir um að taka af bændum þar þau tiltölulega miklu vöruskipti, sem menn þar hafa haft sín í milli, sumir áratugum saman. Ég sé nú ekki ástæðu til að fara með lagasetningu að spilla fyrir þessu. Hvaða ástæða er til að skylda þessa bændur til þess að fara að flytja kjötið til Ísafjarðar, þ. e. reka féð þangað, og meina þeim að selja kjötið beint til neytenda upp í vörur, sem þeir hafa oft fengið handa heimilum sínum mörgum mánuðum áður? Til hvers á að láta þessa bændur borga 5 aura af hverju kg. til þess eins að láta vigta kjötið út úr sláturhúsunum til neytenda?

Ég tel frv. stórgallað fyrir þá menn að m. k., sem tapa fyrir það 15 aurum á hvert kg. af kjöti, sem þeir selja.

Um vöruskipti á milli landbænda og sjávarbænda getur ekki verið að ræða, nema báðir aðilar geti verið vissir um þau löngu áður. Landbændur hafa þarna vestra fengið vörur hjá sjávarbændum að vorinu og sumrinu, þegar flest fólk er hjá þeim í heimili. Og ef þeir geta ekki þá látið sjávarbændur vita, hve mikil vöruskipti þeir geta haft á árinu, þá hlýtur það að draga úr þessum vöruskiptum, eða þau hætta að mestu, til stórskaða fyrir báða aðila. Hæstv. ráðh. sagði, að vöruskipti væru leyfð. Mér er ekki kunnugt um, að þau hafi verið leyfð í Ísafjarðarsýslu, þar sem þeirra er almennust þörf. Flestir, mér liggur við að segja allir, bændur í Norður-Ísafjarðarsýslu hafa haft vöruskipti á þennan hátt.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki erfitt að framfylgja l. þessum. Ég veit, að það er ekki erfitt fyrir kjötverðlagsn. að segja: „Svona skal þetta vera“ og „svona skal þetta ekki vera“. En erfiðleikarnir eru hjá bændunum, sem stórtapa á þessu fyrirkomulagi. Ég hélt, sannast að segja, að þessi lög ættu að vera sett bændum til hagsbóta, en ekki fyrir vissa n., og að kvartanir bænda ætti fremur að taka til greina en álit skrifstofu hér í Reykjavík.