25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég er að sjálfsögðu þakklátur hv. samnm. mínum í landbn. fyrir það, að þeir hafa að nokkru tekið til greina þær aths., sem ég bar fram við frv. við 2. umr. málsins. Ég veit, að það eru ekki fáir bændur, sem verða því fegnir, að vera ekki sviptir heimild til þess að verka sjálfir kjöt sitt á heimilum sínum og skapa sér á þann veg nokkra verðhækkun fram yfir það, sem allur þorri manna fær. Þetta var, að mínu áliti, sjálfsögð lagfæring á frv., og hefir nú hv. n. og hæstv. atvmrh. einnig fallizt á þessa skoðun.

Þrátt fyrir það, þó að ég sé þakklátur fyrir þetta, þá hefði mér þótt þetta, að ekki hefði verið tekið með annari hendinni það, sem gefið var með hinni. Það er verið að bæta úr töluverðum ágalla á l., en svo er aftur lagt til, að breyt. verði gerð á þeim, sem ég álít, að sé til stórkostlegs spillis. Það er sú till. n. í 2. brtt., a-lið, þar sem er heimild til þess að hækka verðjöfnunargjaldið úr 8 aurum á kg. upp í 10 aura. Ég álít, þó að ekki sé um mikla hækkun að ræða, að það sé mjög varhugavert, ekki sízt á þessu stigi málsins, að fara að gefa heimild til þess að hækka verðjöfnunargjaldið frá því sem upphaflega var ákveðið. Það má ekki gleyma því, að þessi skattgreiðsla er í raun og veru óeðlileg. Ástæðan til þess, að lagt var út á þessa braut, var óttinn við kjötstríðið. Eins og kunnugt er, er það Suðurlandsundirlendið, Rangárvallasýsla, Árnessýsla, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Borgarfjarðarsýsla og nokkur hluti Skaftafellssýslna, sem selja kjöt til Reykjavíkur. Að vísu er nokkuð flutt af spaðsöltuðu kjöti úr öðrum héruðum, en nýtt kjöt hefir að mjög litlu leyti verið flutt hingað frá öðrum héruðum fram á síðasta tíma. En þessi héruð hafa einnig, eftir legu sinni, mestan rétt til þess að búa að Rvíkurmarkaðinum. Þau eiga hægast með flutning hingað og eru þannig sett, að þau eiga mjög erfitt með að selja framleiðslu sína annað en til Rvíkur. Náttúrlega er mér ljóst, að fleiri staðir en Rvík geta komið til greina í þessu sambandi, en hinsvegar er það vitað, að það er Rvíkurmarkaðurinn, sem er verið að berjast um, og þess vegna tala ég um hann einungis þó að það sama geti átt við um einhverja fleiri staði að einhverju leyti.

Nú hafa komið fram ógnanir um það frá öðrum landshlutum, sérstaklega Norðurlandi, að hingað yrði hleypt kjöti í stórum stíl. Aðstaðan er sköpuð til þess, með byggingu frystihúsa - sem ríkissjóður hefir lagt mikið fé til - að flytja frosið kjöt hingað og bjóða það hér út fyrir lágt verð, ef til vill lægra en hugsanlegt er, að Suðurlandsundirlendið stæði sig við að selja sitt kjöt. Afleiðingin af þessu má segja, að hefði orðið sú fyrst og fremst, að Suðurlandsundirlendið hefði verið gersamlega eyðilagt í þessari samkeppni. Það hefir óneitanlega að vissu leyti verri aðstöðu en aðrar sveitir landsins, því að það hefir fyrst og fremst dýrari framleiðslu, og í öðru lagi lakara kjöt, eða a. m. k. stór svæði þess. En það hefði ekki einungis orðið Suðurlandsundirlendið, sem eyðilagzt hefði í þessu stríði, heldur líka þau héruð, sem stríðið hefðu hafið og flutt kjöt hingað og selt það hér fyrir óeðlilega lágt verð.

Til þess að koma í veg fyrir kjötstríðið, hefir verið gengið inn á það - ég ætla ekki með óánægju hjá þeim, sem verðjöfnunargjaldið borga, - að borga nokkurt tillag af því kjöti, sem selt er á innlendum markaði, og sem renna á til þeirra, sem verða að selja kjöt til útflutnings. Þó að gengið hafi verið að þessum skilmálum, þá er vitanlega hægt að spenna bogann of hátt. Að ekki hefir verið meiri óánægja með þennan skatt, sem í raun og veru er ekki ótilfinnanlegur, er einungis af því, að farið hefir verið þetta varlega af stað. Verðjöfnunargjaldið er í þetta sinn 6 aurar, og hámarkið ekki nema 8 aurar. Nú er lagt til, að heimild verði gefin til þess að hækka þetta um 25% frá því hámarki, sem upphaflega var ákveðið, og það er náttúrlega ekki óveruleg hækkun. Menn verða að gæta þess, þegar um verðjöfnunartillagið er að ræða, hverjum augum sem menn líta á sanngirni þess, að það eru sunnlenzkir bændur, sem að Rvíkurmarkaðinum búa, sem greiða það, og að geta manna til þess er víða af ákaflega skornum skammti. Kjötverðið, sem sunnlenzkir bændur fá útborgað, þrátt fyrir sæmilegt verð, verður í 1. flokki 90½ eyrir á kg., og í 3. flokki verður það aðeins 64½ eyrir. Frádráttur verður þessi: Í skatt 10 aur. pr. kg., í sláturhúsgjald 3 aur. pr. kg., og auk þess heldur sláturhúsið eftir 2½ eyri. Þetta verða samtals 25½ eyrir, sem bætast svo við þá 64½ eyri, sem ég áður nefndi. 10 kg. lamb gefur því kr. 6.45 fyrir kjöt.

Menn mega ekki gleyma því, að það er ótrúlega mikill hluti af því kjöti, sem kemur á Rvíkurmarkaðinn, í 3. flokki. Úr sumum sveitum er það milli fjórða parts og helmings, sem er í 3. flokki, og svo fer ákaflega mikið af því kjöti í 2. flokk, sem ekki lendir í 3. flokki, en tiltölulega mjög lítill hluti þess fer í 1. flokk. Geta þessara manna, sem ekki hafa betri framleiðslu en þetta, til þess að greiða háan skatt, fyrir að nota markaðinn hér í Reykjavík. - sem þeir eiga mestan rétt til, - er ákaflega lítil. Það eru margar sveitir á Suðurlandsundir- lendi, t. d. í Árness- og Rangárvallasýslum, sem svo stendur á um - Borgarfjörðurinn hefir aðra aðstöðu, vegna þess að hann hefir miklu vænna kjöt, - að framleiðslukostnaðurinn hjá þeim bændum, sem þar búa og verða að framleiða kjöt sér til lífsviðurværis, til þess að geta haldizt við í sveitunum, er vafalaust meiri en víðast annarsstaðar á landinu. Kaupgjald er þar yfirleitt hærra og allur búrekstur dýrari heldur en þar, sem menn eru betur í sveit settir.

Aftur á móti er það svo nú - og verður væntanlega svo í framtíðinni -, að þau héruð, sem salta kjöt til útflutnings, hafa tiltölulega góða aðstöðu til að framleiða kjöt, t. d. Dalirnir, Barðastrandir, Múlasýslur, Langanesstrandir, Breiðdalur og Djúpivogur. Í flestum þessum sveitum eru landskostir góðir og mjög góð kjötframleiðsla. Sennilega er ekki of mikið í lagt að telja, að á stórum svæðum í þessum sveitum leggi dilkurinn sig á 15 kg. til jafnaðar, og jafnvel meira. Eftir upplýsingum, sem landbn. hefir fengið, má gera ráð fyrir, að verðjöfnunarskatturinn, sem borgaður er í haust og kemur til skipta aftur, muni nema kr. 150000,00 samtals. Saltkjöt, sem út verður flutt, mun naumast fara yfir 1 millj. kg., og verður líklega þar fyrir neðan. Það má gera ráð fyrir, að verðjöfnunartillagið, sem greitt verður í haust, nemi a. m. k. 15 aurum á kg., og verður ef til vill heldur þar fyrir ofan. Þó að gert sé ráð fyrir, að það verð, sem saltkjötsframleiðendur fá fyrir afurðir sínar, nemi ekki meira en 50 aurum á kg., þá verður þó nettóverðið til bændanna a. m. k. 65 aurar á kg., og eru þeir þannig komnir hærra heldur en mikill hluti þeirra bænda, sem býr að bezta kjötmarkaði landsins.

Þetta virðist mér, að fari að verða ákaflega viðsjárverð braut, að ætla að neyða þá menn, sem erfiðasta aðstöðu hafa til kjötframleiðslu, til þess að greiða svo háan skatt til hinna, sem búa við ágæt framleiðsluskilyrði, að verð á kjöti hinna síðarnefndu verði hærra en hjá hinum fyrrnefndu. Menn verða aldrei til lengdar ánægðir með slíka löggjöf, og það verða hv. þ. dm. að athuga, að það er viðsjárvert að setja um þetta löggjöf, sem hefir þær afleiðingar, að gjaldendurnir verða óánægðir. Löggjöf, eins og hér er verið að búa til, getur því aðeins blessazt, að þeir, sem gjaldið eiga að greiða, sjái fyrst og fremst, að það sé réttlátt, og svo í öðru lagi, að ekki sé svo nærri þeim gengið, að það komi verulega hart við þá.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en ég hefi viljað vekja athygli hv. dm. á þeim hlutföllum, sem fram koma millum manna um kjötverðið, og ég þykist hafa sýnt fram á það og fært rök fyrir, að það sé mjög varhugavert, a. m. k. á meðan engin reynsla er fengin um þetta fyrirkomulag, að gefa heimild til þess að hækka verðjöfnunargjaldið. Ég vil vænta, að hv. þdm. hugsi sig tvisvar um. án tillits til flokksfylgis, áður en þeir rétta höndina upp til þess að samþ. þessa hækkun, sem hér um ræðir.