25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. þm. N.-Ísf. á hér brtt., sem hann hefir mælt fyrir. Út af því vildi ég segja það, að ég lít svo á, að ef þeir staðhættir, sem frv. gerir ráð fyrir, eru fyrir hendi í heilli sveit, þegar veitt er leyfi til heimaslátrunar, sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að einstaklingar geti slegið sér saman. Ástand það, sem hann lýsir, hlýtur að heyra undir það, að illkleift sé að koma fénu til sláturhúss, og undanþágan virðist alveg eins geta átt við, þó að fleiri búi saman. Það er alveg rétt til getið hjá hv. þm. N.-Ísf., að það er síður en svo, að landbn. vilji gera bændum óþægindi. Fyrst og fremst vill hún auðvitað verða þeim að liði. Hv. þm. talaði um, að ég hefði getið þess, að annar tilgangur frv. væri sá, að bera uppi verð kjötsins á erlendum markaði. En þetta er misskilningur. Ég veit vel, að við ráðum ekki yfir erlenda markaðinum. En verðjöfnunargjaldið er lagt á kjöt, sem selt er innanlands, til þess að bæta upp hið lélega verð á erlenda markaðinum.

Hv. 2. þm. Rang. komst svo að orði, að tekið væri aftur með annari hendinni það, sem gefið væri með hinni. Það, sem n. gæfi væri heimildin um milliliðalausa sölu á reyktu kjöti, en það, sem hún tæki, fælist í heimildinni um að hækka verðjöfnunargjaldið. Ég skal nú taka það fram, að ég lít svo á, að verðjöfnunargjaldið sé ekki eingöngu tekið af þeim, sem framleiða og selja kjöt, heldur sé það eins eða jafnvel fremur tekið af þeim, sem kaupa kjötið og neyta þess. Annars held ég, að hv. þm. megi ekki beinlínis miða við verðjöfnunargjaldið eins og það gæti orðið hæst, og svo aftur við verðlagið á kjötinu innanlands í ár. Mér er sagt, að útreikningur hv. þm. sé vafasamur, þó að ég hinsvegar viti, að hann fer ekki með annað en það, sem hann álítur rétt. En mér er sagt, að kjötverðið, sem bændur fá hér í nágrenni Rvíkur, muni vera hærra en hann gerir ráð fyrir. En ég skal ekki deila um þetta, því að það kemur ekki málinu beinlínis við. Verðjöfnunargjaldið er sett til þess að friða markaðinn fyrir þeim, sem hægast eiga með að nota söluna innanlands, og jafnframt til þess að bæta upp söluna á erlenda markaðinum, ef erfiðlega gengur þar. Það er á misskilningi byggt að ræða um getu framleiðendanna til að greiða þetta gjald, því að það er ekki af þeim tekið einvörðungu, heldur af neytendum jafnframt, eins og ég drap á áðan. Á það má benda, að bændur hér í kringum Rvík fengu í fyrra mun lægra verð fyrir kjöt sitt en nú, þó að þeir skilji eftir verðjöfnunargjaldið þegar þeir hirða nettóverð kjötsins. Hv. 2. þm. Rang. sagði, að hótað hefði verið kjötstríði. Ég veit nú ekki, hvort nokkur slík hótun hefir komið fram. En það er staðreynd, að varan leitar þangað, sem hægt er að fá mest fyrir hana. Ég er sammála hv. þm. um það, að ef slíkt stríð skylli á, yrði það öllum aðilum til bölvunar. Þó að neytendur kynnu að hagnast á því í bili, er ekki líklegt, að það yrði til frambúðar. Það má ekki loka augunum fyrir því, að hér eru fleiri en einn aðili, sem þarf að gera ánægða. Einn aðilinn er neytendur, annar aðilinn eru þeir, sem nota innlenda markaðinn, og í þriðja lagi eru þeir, sem verða að nota erlenda markaðinn, sem orðinn var svo hraksmánarlegur, að fyrsta flokks dilkakjöt var komið niður í 40 aura fyrir tveimur árum. Mér er það vel ljóst, að gæta verður hófs í allri sambúð þessara aðilja, og ég verð að segja, að mér finnst neytendur hafa yfirleitt tekið ágætlega undir þessi lagafyrirmæli. Ég er ekki í neinum efa um, að margir fátækir neytendur geta orðið hart úti vegna þeirrar verðhækkunar, sem orðið hefir á kjöti síðan í fyrra og verða kann í framtíðinni sem bein afleiðing þessarar lagasetningar. Ég tek það að vísu ekki alvarlega, þó að einn hv. þm. hér í d. segði, að hann hefði ekki lengur ráð á að kaupa kjöt, en ég veit, að það eru margir, sem síður geta veitt sér það nú, þó að þeir hafi getað það meðan það var í lægra verði.

Ég lít svo á, að fara þurfi varlega gagnvart öllum þessum aðilum, og þá líka þeim kjötframleiðendum, sem ekki geta notað innlenda markaðinn. Ég veit eigi með vissu, hvernig hlutföllum um söluna er háttað, en fróðir menn segja, að í fyrra hafi verið seld út úr landinu um 2200000 kg. af kjöti, en 2800000 kg. í landinu. Ef gengið væri út frá því, að þær ástæður gætu verið fyrir hendi, að bæta þyrfti upp verð á öllu útflutningskjöti, frystu og söltuðu, mundi 6 aura verðjöfnunargjald á kg. af innanlandssölunni hrökkva skammt, og ef samskonar útkoma yrði á sölu útflutningskjötsins í ár og 1932, þá er öllum ljóst, að ómögulegt væri að lifa á slíkri kjötframleiðslu, þó að c. 7 aura uppbót kæmi á kg.

Hv. 1. þm. Reykv. mælti fyrir brtt. sinni og drap á, að Framsfl. hefði jafnan barizt á móti milliliðunum. Það er rétt að því leyti, að flokkurinn hefir jafnan barizt á móti óþörfum milliliðum. Hv. þm. veit vel, að hjá milliliðum verður ekki með öllu komizt, og ef vel er á haldið, geta þeir milliliðir, sem hér um ræðir, orðið til þess að draga úr dreifingarkostnaði varanna. Mér er sagt, að dreifingarkostnaður við sölu kjötsins hér í Rvík hafi lækkað um meira en helming, og þess háttar milliliðum er Framsfl. á móti, enda er ekki hægt að framkvæma það skipulag, sem l. gera ráð fyrir, án þeirra. Hv. þm. vill, að leyfð verði undanþága þeim kjötframleiðendum, sem geta gert það sennilegt, að þeir hafi áður haft milliliðalaus viðskipti. En ef það yrði nú talsverður hópur manna, þá gæti hlotizt af því tjón og truflun á sölunni og orðið þeim skipulagsbundnu til mikils ógagns.

Ég veit ekki, hvort ég á að hætta mér út í lögskýringu út af kæfu og rúllupylsu. En mér þykir líklegt, að viðskipti með þær vörur nemi ekki svo miklu, að þau skipti verulegu máli, og ólíklegt, að um þau verði árekstur við kjötverðlagsnefnd, sem óefað sér nægar leiðir til þess að ráða fram úr þeim vanda. Annars virðist mér í fljótu bragði vafasamt, hvort fullkomlega væri rétt að kalla þessar vörur kjöt í venjulegri merkingu þess orðs.

Ég vil nú vænta þess, að þetta frv. fái að ganga gegnum þingið í líku formi eins og landbn. og landbrh. ætlast nú til. Ég er þess fullviss, að þetta er spor í rétta átt, og ef framleiðendur og neytendur taka höndum saman um lausn málsins, hlýtur að nást sá árangur, sem annars er mögulegt að ná. Hér þarf fyrst og fremst samstarf og skilning. Það hefir gengið vonum betur að þessu og er þess að vænta, að svo verði framvegis.