25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ræða hv. frsm. gefur ekki tilefni til langra andsvara. Hann talaði af sanngirni og stillingu, eins og hans er vani. Ég felst vitanlega á margt, sem hann sagði. Þó vil ég gera aths. við eitt atriði í ræðu hans. Hann sagði, að verðjöfnunargjaldið félli ekki á framleiðendur, heldur á neytendur. Þetta álít ég vera misskilning. Verðjöfnunargjaldið hlýtur, hvernig svo sem að er farið, að koma niður á framleiðendum, annaðhvort beint eða óbeint. Beint, ef kjötinu er haldið í eðlilegu verði, því verði, sem það á að vera í, því verði, sem bezta heildarútkoman gefur fyrir netendur. Ef um verðálagningu er að ræða, þá borgar framleiðandi gjaldið beint. Ef farið er upp úr þessu verði, þá hlýtur að koma óeðlilegur hnekkir í kjötsöluna. Þetta hefir alls ekki komið fyrir nú. Enda má það ekki koma fyrir, því að þá verður neyzlan minni en hún á að vera, og þá lendir verðjöfnunargjaldið á framleiðanda á þann hátt, að hann verður að selja minna af sinni vöru en hann þarf að selja. Kjötverðinu er stillt svo í hóf, að ekki er hætt við, að það dragi úr kjötneyzlunni af þeim ástæðum.

Ég er ósammála hv. frsm. um það, að neytendur hafi orðið hart úti vegna þessara laga. Þeir hafa ekki kvartað. (PHerm: Hvað segir hv. l. þm. Reykv. um það?). Mér er alveg sama hvað hann segir. Þó hann sé venjulega rökvís, er ég honum þó ekki sammála um það, að kjötverðið hafi verið spennt svo hátt upp, að hætta stafi af fyrir neyzluna. (MG: Reynslan sýnir það). Kjötneyzlan í bænum er alveg eðlileg. Ég er alveg viss um, að kjötverðið er í fullu samræmi við verð á öðrum matvörum hér í bænum, og þessa vegna tel ég ástæðulaust að ætla, að neytendur fælist frá.

Það er misskilningur hjá hv. frsm., að verðjöfnunarskatturinn komi framleiðendum ekkert við, því að neytendur borgi. Skatturinn lendir beint eða óbeint á framleiðendum, venjulega beint, eins og hann á að gera.

Hv. frsm. dregur í efa, að útreikningur minn á kjötverðinu sé réttur. Það kom skýrt fram hjá hv. 2. þm. Eyf. Kjötverðið er gefið upp af Sláturfélagi Suðurlands. Hv. frsm. getur fengið upp lýsingar þar og séð, hvort ég hefi farið rangt með. Frádráttur frá þessu brúttóverði, ef hámarksheimild frv. er notuð. er 10 aur. skattur á kg. Á 10 kg. skrokk er sláturgjaldið 8 aur. á kg. Auk þess fer 3% skattur til Sláturfélagsins. Þessi frádráttur verður samtals 25,5 aur. á hvert kg. Nú er það 16,5 aur., því að skatturinn er 6 aur. nú í ár. En ef hámarksheimildin er notuð, þá get ég ekki betur reiknað en að 64,5 aur. komi á hvert kg. hjá framleiðanda.

Það er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Eyf., að ég beri saman fyrsta og annars flokks kjöt annarsvegar og þriðja flokks kjöt hinsvegar. Ég ber aðeins saman getu þeirra manna, sem reka tvennskonar kjötframleiðslu, þeirra manna, sem framleiða 10 kg. lömbin hér á Suðurlandi, annarsvegar, og hinsvegar þeirra, sem framleiða úrvalskjöt í fjarlægum héruðum, til þess að lifa af búrekstri sínum. Þar með er ekki sagt, að eðlilegt sé, að sama verð sé á fyrsta flokks kjöti og þriðja flokks kjöti. Ég veit vel, að ef selja á það kjöt á sama markaði, þá er vitanlega rétt að betra kjötið sé í hærra verði. Það er ekki það, sem hér er um að ræða, heldur getan til þess að greiða.

Hv. þm. talaði líka um, að bændur kringum Rvík fengju ýms fríðindi vegna þessarar laga, sem sé, að fá að búa að Rvíkurmarkaðinum óáreittir. Það er mikið rétt. En ef svo verður í framkvæmdinni, sem ég vona, þá hafa þeir þó borgað fyrir þau fríðindi.

Ég vil benda hv. þm. á það, að það er ekki ómögulegt, að viss héruð hafi heimild til markaðs í Rvík, án þess þau greiði nokkur fríðindi. Það er hugsanlegt. Ég segi ekki, að það hefði verið rétt. Og ég er ekki á móti því, að endurgjald komi frá nærsveitum Rvíkur fyrir þessi fríðindi. Ég hefi áður sagt, að þessu verði er stillt í hóf, og ég stend við það. Það má ekki fara út fyrir visst hámark. Það má að vísu deila um það hámark.

Það er sannfæring mín, að það megi ekki, a. m. k. áður en nokkur reynsla er fengin, og sé óskynsamlegt við umr. málsins hér á þingi að hækka tillagið frá því, sem lagt er til af n., sem undirbjó lögin, og stj., þegar hún setur lögin. Ég get endurtekið það, sem ég hefi áður sagt um þessi lög: þau gera áreiðanlega gagn og með þau eru menn nokkurn veginn ánægðir. Það er ekki rétt, að styr eða úlfúð hafi spunnizt út af þeim. Það er áreiðanlega bezt, að þeir, sem skattinn eiga að greiða, geri það með ljúfu geði, en séu ekki látnir halda, að verið sé að beita þá ranglæti.

Hv. frsm. sagði, að ef bæta þyrfti upp allt útflutt kjöt, hrykki þessi skattur skammt. Þetta er vitanlega alveg rétt. Það er óhugsandi, að menn fari svo hátt með skattinn, að hann hrykki til þess að bæta upp allt útflutt kjöt, ef verðlagið verður það sama og 1932, eða það sama og búast má við, að verði á saltkjöti í haust. (PHerm: Ég er því samþykkur). Við verðum að miða við það ástand, sem við eigum nú við að búa.

Menn eru að vona, að nú verði sæmilegt verð á frosnu kjöti. Við verðum að keppa að því, að sem minnst verði flutt út af söltuðu kjöti. Það sést betur og betur með hverju ári, sem líður, að það er engin framtíð fyrir saltkjötsmarkað erlendis. Engin þjóð vill orðið saltkjöt nema þá fyrir sáralítið verð. Hinsvegar verður að vinna að því að útvega sem beztan markað fyrir kælt kjöt. Ég er ekki vonlaus um, að hægt sé að fá markað fyrir dilkakjötið okkar í fleiri löndum en Englandi. Ef til vill væri hægt að fá betri markað heldur en Englandsmarkaðinn. Það er mjög bagalegt, hversu lítið er gert af hálfu þess opinbera til þess að skapa markað fyrir innlendar vörur í öðrum löndum. Þetta afskiptaleysi er ekki sízt tilfinnanlegt hvað kjötafurðir áhrærir, því að í rauninni er ekkert gert af hálfu þess opinbera til þess að greiða fyrir kjötsölunni erlendis, nema ef nefna mætti styrk til frystihúsabygginga. Þetta er vitanlega ekki unnt að framkvæma á einu ári. Kjötið þarf mikinn tíma til þess að vinna nýjan markað. Ég er sannfærður um, að því fyrr sem það verður gert, því betra. Það verður að vinna vel að því máli. Ef þetta verður gert, sem sé, ef allt verður með felldu með útflutning á kældu kjöti, þá sýnist mér ekki ástæða til þess að miða þessa löggjöf við það, að greitt sé verðjöfnunargjald í sambandi við slíka framleiðslu. Komi það á daginn, að ómögulegt verði að lifa á kjötframleiðslu, þá yrði landbúnaður okkar að breytast. Við yrðum þá að takmarka kjötframleiðsluna.

Það er óhugsandi að leggja slíkan skatt á innlenda neyzlu, til þess að bæta á þann hátt upp verðálagningu á vöru, sem flutt er úr landinu í stórum stíl.