30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að hafa langa framsöguræðu fyrir þessu máli. Eins og frv. ber með sér, er það komið frá 3. umr. í Ed., og hafa þar verið gerðar á því örfáar breyt. Að þessu sinni skal ég þá aðeins gera grein fyrir þeim breyt., sem gerðar hafa verið á frv.

Á 3. gr. frv. hefir verið gerð sú breyt., að mönnum er ekki leyfilegt að kaupa fé á fæti til slátrunar, nema með leyfi kjötverðlagsnefndar. Er þetta gert til þess að fyrirbyggja, að sú heimild, sem áður fólst í l. til þess að kaupa fé á fæti, verði misnotuð. Ennfremur er sú breyt. gerð á 3. gr. frv., að mönnum er nú heimilt að selja reykt kjöt beint frá heimilum sínum, án þess að það þurfi að fara í gegnum samvinnufélög bænda. Þetta hefir verið framkvæmt þannig í haust, að einstaka mönnum hefir verið leyft þetta, en nú þótti rétt að taka það upp í 1., og hefir þetta nú þegar verið auglýst öllum almenningi. Í þriðja lagi hefir verið tekið upp í 3. gr. það ákvæði, að kjötverðlagsnefnd er heimilt að veita slátrunarleyfi þeim einstaklingum, sem eiga sérstaklega erfitt um rekstur til slátrunar. Það mun sérstaklega hafa borið á erfiðleikum hvað þetta snertir á Vestfjörðum, og þótti því rétt að breyta þessu á áðurgreindan hátt.

Að síðustu hefir sú breyt. verið gerð á 4. gr. frv., að þar er gefin heimild til þess að hækka verðjöfnunargjaldlið úr 8 aurum upp í 10 aura. Er þessi breyt. gerð með tilliti til þess, að það þykir nokkuð vafasamt, eins og útlitið er nú með hinn erlenda kjötmarkað, að heimildin til þess að hafa gjaldið 8 aura sé nægilega há. Jafnframt hefir verið gerð sú önnur breyt. á 4. gr., að heimilað er að undanþiggja kjöt af mylkum ám verðjöfnunargjaldi. Það hefir verið gert í haust, og þótti ekki ástæða til, þar sem þetta kjöt er sérstaklega óútgengilegt, að taka gjald af því.

Þessar breyt., sem nú hafa verið gerðar á frv., hafa allar verið framkvæmdar á síðasta hausti, nema hækkun verðjöfnunargjaldsins. - Ég vil svo leyfa mér að mælast til þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn., að þessari umr. lokinni.