30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

27. mál, sláturfjárafurðir

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði ekki flutt þetta mál fyrstur manna hér á Alþ., og skal ég játa það rétt vera, að landbn. Nd. flutti svipað mál, þó með allverulegum breyt., árið áður. Það geta þeir kynnt sér, sem lesa bls. 245 í A-deild þingtíðindanna frá 1932.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. sagði um það frv., sem ég bar fram um þetta efni, að það hafi verið eyðilagt af fyrrv. formanni Sjálfstfl., er það að segja, að frv. hefði náð fram að ganga, ef einn einasti maður úr öðrumhvorum þeim flokki, sem styður hæstv. forsrh. nú, hefði fengizt til þess að ljá því fylgi sitt. En það var ekki einn einasti réttlátur til í þeirri Sódóma á því tímabili. Mér þætti gaman að fá vitneskju um það frá hv. 2. þm. Reykv., af hverju þessi snöggu sinnaskipti hans og flokksmanna hans stafa. Og ég skal fyrir 2. umr. málsins lesa eitthvað af ræðum hans frá því á þinginu 1933 og bera þær saman við afstöðu hans til þessa máls nú, og láta svo rauða rannsóknarréttinn finna út, af hverju hv. þm. hefir snarsnúizt svona í málinu. (HV: Hv. þm. ætti að gera meira að því að lesa mínar ræður). Já, því að „til þess eru vítin að varast þau“. Þrátt fyrir fylgisleysi jafnaðarmanna gengu ákvæði þess fram, en þau komust ekki til framkvæmda af því að þáv. lögreglustjóri hér í bænum stóð illa í stöðu sinni. Þessi lögreglustjóri er nú forsætisráðherra.

Það má kannske segja, að það skipti ekki aðalmáli, þó að hæstv. forsrh. hafi ekki kynnt sér afstöðu landsfundar Sjálfstæðismanna til þessa máls. Í framsöguræðu um afurðasölumálin, sem ég flutti á landsfundinum, stendur þetta m. a.:

„Stærsta velferðarmál landbúnaðarins er fjárhagsleg velmegun sjávarútvegsins. Þetta verður æ því berara, eftir því sem þrengist um sölumöguleika á landbúnaðarafurðum á erlendum markaði. Og nú þegar svo er komið, að 2/3 hlutar kjötsölunnar og auk þess öll sala mjólkur og mjólkurafurða fer fram á innlendum markaði, er það ljóst, að fyrir bændur veltur á því tvennu, að sá þáttur íslenzkrar framleiðslu, sem seldur er á erlendum markaði, komist í svo hátt verð, að hann geti skapað almenningi góða kaupgetu, og svo hinu, að bændur fái að njóta þessarar innlendu kaupgetu og neyzluþarfar, en það má tryggja með tollalöggjöf, ef vilji er til“.

Svo kemur kafli um, hvernig horfur séu um sölu landbúnaðarafurða á erlendum markaði, en síðan kemur þetta:

„Sjálfstæðismenn munu hlusta á ráð bænda til úrlausnar þessa höfuðnauðsynjamáls þeirra, og fara eftir öllum skynsamlegum tillögum þeirra, bæði að því er snertir sölu kjöts, mjólkur og mjólkurafurða. Er þetta enganveginn vandalítið viðfangsefni, en þó vænti ég, að mjólkursalan verði auðleystust og hafa framsóknarmenn nú aðhyllzt frv., er ég flutti á síðasta þingi um skipulag á mjólkursölunni, sem fyrst og fremst miðar að því að draga úr dreifingarkostnaðinum, svo að fátækir framleiðendur beri meira úr býtum án þess að neytendum sé íþyngt.

Þetta er í svipinn langstærsta hagsmunamál bænda, og þeim ber því sérstaklega að sinna með alúð og velvild, og það skal tryggt lífvænlegt verð fyrir afurðirnar“.

Í sambandi við þetta var samþ. till. á landsfundinum alveg í þessum anda og er hún svo hljóðandi:

„Að tryggja framleiðslu landbúnaðarins sem víðtækastan markað innanlands og að rannsaka, á hvern hátt megi jafna aðstöðu héraðanna til þess að færa sér hann í nyt“.

Mér þykir rétt, að þessi afstaða Sjálfstfl. komi hér augljóslega fram, af því að stjórnarliðið hefir leyft sér þá ósvinnu að reyna að spana menn til andúðar gegn kjötsölulögunum. Ég mun ef til vill síðar leiða hæstv. forsrh. það fyrir sjónir, hvílík hætta bændum gæti stafað af þessu framferði hans og flokksmanna hans. Ég tel rétt að benda hæstv. forsrh. á það, af því ég ætla, að hann hafi ekki gert sér það fyllilega ljóst með rólegri athugun, að ef hann í raun og veru vill verða bændunum að gagni, þá verður hann að bæta ráð sitt í þessu efni, og ef hann lætur sér ekki segjast af þeim leiðbeiningum, sem hann þegar hefir fengið bæði í ræðu og riti, kynni að verða tækifæri til að gera honum betri skil áður en málið fer út úr deildinni. En það er víst, að farsæl lausn þessa máls fæst því aðeins, að lögin öðlist samúð og skilning bæði neytenda og framleiðenda. Slíka samúð er hægt að tryggja, en það er líka auðvelt að spilla henni. Hæstv. forsrh. og flokkur hans hafa alið á þessari andúð bændunum til tjóns. Þó að hæstv. ráðh. þykist bera hag þeirra fyrir brjósti, er umhyggja hans fyrir þeim ekki svo rík, að hún bæli niður pólitískt ofstæki og skammsýna andúð til bæjanna, sem einkennt hefir flokk hans frá upphafi. Þetta má öllum vera áhyggjuefni, því að hagur sveitanna verður aldrei tryggður með lögum einum, ef ófyrirleitnum mönnum tekst að skapa og magna andúð frá sjávarsíðunni í garð sveitanna. Hæstv. forsrh. verður því að gæta þess að hafa hóf á tungu sinni og ófyrirleitni flokksmanna sinna, ef hann vilt, að vel fari.