30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

27. mál, sláturfjárafurðir

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Í tilefni af þessum síðustu orðum hv. þm. N.-Þ., að það væri lítilmótleg framkoma hjá Sjálfstfl. að gefa þessa yfirlýsingu, vil ég segja það, að bæði um þetta mál og eins um mjólkurmálið hefir flokkurinn verið skiptur. Það kom fram á þingi 1933, þegar þessi mál voru til umr.

Að flokkurinn gaf þessa yfirlýsingu, var ekki ófyrirsynju, því að óvandaðir blaðasnápar - þeir taki sneið, sem eiga - báru það út, að flokkurinn stæði óskiptur gegn 1., því að það taldi flokkurinn vísvitandi ósannindi.

Hv. þm. veit, að hans flokkur hefir svikið bændur með því að lækka mjólkurverðið. Jafnaðarmenn töldu sig tilneydda fyrir frumhlaup Sigurðar nokkurs Einarssonar að lækka verðið og heimtuðu það af stj. Hún taldi sig varla geta orðið við þessu, því að það voru svik við bændur. En jafnaðarmenn surfu það að stj., að hún varð að láta undan, en til þess að breiða yfir þau svik, báru þeir það út, að sjálfstæðismenn hefðu verið á móti þessu. Þetta er vísvitandi ósannindi, og er þetta lítilmótleg afstaða til eins máls. Svipað má segja um alla þá langloku, sem þessi hv. þm. þuldi hér og var hrakin í hinni ýtarlegu og skörulegu ræðu hv. þm. Borgf. Er því ekki ástæða fyrir mig að fara frekar út í það, einkum þar sem ég hefi nú lyfi til að gera stutta aths., en tilefnið til þess var, að ég þurfti að leiðrétta nokkur atriði, sem hann fór rangt með.

Það er rétt, sem ég sagði, að ég flutti þetta mjólkurmál inn á þingið 1933. Það er að vísu rétt, að landbn. hafði hreyft málinu áður, en þá var það öðruvísi. En það raskar ekki þeim sannleika, að Eyjólfur Jóhannsson er frumkvöðull málsins. En svo lítilmótleg er afstaða hæstv. forsrh., að hann er nú að gera tilraun til að blekkja þingheim með því, að fyrrv. dómsmrh. hafi stöðvað framkvæmd þessa máls, þó að það sé rétt, að hann stöðvaði það í tvo daga, en lögreglustjóri, núv. hæstv. dómsmrh., stöðvaði það í 15 mánuði. Hæstv. ráðh. hefir í höndum skjöl, sem sýna þetta og sanna, og ég skora á hann, ef hann þorir, að gefa mér aðgang að þessum skjölum, þá skal þetta sannast.

Það er líka satt, að það voru fyrst og fremst jafnaðarmenn, sem unnu að því að fella þetta mál, þar sem þeir stóðu allir gegn málinu, en sjálfstæðismenn skiptir. Allt, sem ég hefi sagt, er því satt, en allt, sem hv. þm. sagði, er ósatt.

Það fer illa á því að heyra það af vörum hv. þm. N.-Þ., að hann sé að fárast yfir því, að mál séu ekki rannsökuð. Hann og hans flokkur hafa sýnt það, að honum er sýnna um annað en að rannsaka fyrirfram. Honum er sýnna um að rasa fyrir ráð fram en að líta með hugsun á málin, og þess vegna gefa þau ekki þann árangur, sem annars mætti vænta.

Svo vil ég segja hæstv. forsrh. það, að hann er ekki það ríkur af samlíkingum, að hann varð að fá lánaða þessa samlíkingu við hv. þm. Borgf. Hann fékk hana hjá hv. þm. Mýr., ég veit það, af því að hann sagði það sama við mig. Hann líkti hv. þm. Borgf. við frísandi gæðing fyrir of þungum vagni, sem kæmist ekki áfram. Ég segi, að það er rétt, hv. þm. Borgf. er gæðingur, en hann kemst áfram og mylur framsóknarkögglana undir sig.

Að endingu vil ég svo segja ritstjóra Tímans það, að þegar hann er hér farinn að fárast yfir því, hvað það sé óskaplegt, að menn séu hér ósanngjarnir og segi ósatt, þá gangi hann út og hengi sig. (Forseti hringir).