30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal nú í fáum orðum reka allan þennan reyk aftur ofan í hv. 8. landsk. Ég vil að svo stöddu gera ráð fyrir, að þetta fleipur hans um málið stafi af fljótfærni og vanþekkingu, fremur en af því, að hann hafi ætlað sér að segja vísvitandi ósatt.

Ég skal þá byrja á því að lýsa yfir því, að hv. 8. landsk. og hv. þm. G.-K. er velkominn aðgangur að öllum þeim skjölum, sem farið hafa á milli mín og dómsmrn. um þetta mál. Bréf það, sem hv. 8. landsk. var að tala um, að dómsmrn. hefði sent til lögreglustjóra, var um framkvæmd á dómi gagnvart manni einum vestur í bæ, sem seldi ógerilsneydda mjólk austan úr Flóa. Maður þessi hafði tvær verzlanir og seldi í þeim ýmsar fleiri vörur en mjólk. Maðurinn neitaði að hlíta lögunum, nema lokað væri hjá honum. Nú vantaði um það ákvæði í lúgunum, hvað gera skyldi, þegar svo stæði á, að verzlað er með fleiri vörur en mjólk í þeim búðum, er fara í bága við lögin. Hér gat því verið um stórkostlegt fjárhagsatriði að ræða. Fulltrúinn hringdi því í dómsmrn. og bað um frest í nokkra daga. Var þá getið það svar þar, að framkvæmd dómsins skyldi frestað, þangað til ráðuneytið léti lögreglustjóraskrifstofuna vita. Um þetta liggur fyrir embættisvottorð fulltrúans. Þetta mun hafa verið 19. maí í vor.

21. maí, eða tveim dögum seinna, sendi skrifstofa lögreglustjóra bréf til dómsmrn. með fyrirspurn um það, hversu að skyldi farið þegar svo stæði á sem í þessu máli. Eftir kosningar, eða seinast í júní, kemur síðan loksins svar frá dómsmrn., dagsett rétt fyrir kosningar, þar sem því er svarað til, að lögreglustjóraskrifstofunni komi það ekkert við, hvernig mjólkurlögin séu framkvæmd. Þessi skjöl liggja öll fyrir, og er öllum hv. þm. heimilt að ganga að þeim.

Allt skraf hv. þm. Sjálfstfl. um þessi efni er því tómt fleipur og misskilningur. Enda veit hv. þm. G.-K. það vel, að það var ætlun ráðandi manna í flokknum að framkvæma mjólkurlögin á allt annan hátt en gert var.

Hv. 8. landsk. segir, að lögreglustjóra sé ekki leyfilegt að hlýða skipunum dómsmrh. um frestun á framkvæmd laga. En ég held því fram, að enginn lögreglustjóri geti leyft sér annað, þegar svo stendur á sem hér, að um stórkostlegt fjárhagsatriði er að ræða fyrir embættið. (ÓTh: voru ekki liðnir 10-12 mánuðir frá því, að lögin gengu í gildi, þegar fresturinn var gefinn?). Samkv. l. mátti ekki selja ógerilsneydda mjólk nema gegnum löggilt bú. En rétt fyrir jólin í fyrra, þegar fyrirskipað var að fara að framkvæma lögin, kom það upp úr dúrnum, að engin löggilt bú voru til, - ekki einu sinni Korpúlfsstaðabúið! Síðan var Lögbirtingablaðinn dreift út daginn eftir með löggildingu búanna. Skrifstofustjórinn í dómsmrn. gaf þá skýringu á þessu, að gleymzt hefði að löggilda búin! (ÓTh: Það þurfti engin bú að löggilda, hefði verið séð um, að ekki væri seld nein ógerilsneydd mjólk). Það er alveg kostulegt að heyra til þessara manna, sem nú hafa verið reknir úr einu horninn í annað, unz þeir eru komnir í sjálfheldu fljótfærni sinnar og ósanninda, við það að reyna að klóra yfir framkvæmdaleysi fyrrv. stj. í afurðasölumálunum.

Þá er ekki lítið samræmi í því, er hv. þm. G.-K. er að tala um það, að jafnaðarmenn hafi algerlega lagt Framsfl. undir sig, en hafi þó verið móti mjólkurlögunum, máli, sem Framsfl. hefir komið fram, gegn andstöðu mikils þorra sjálfstæðismanna. Sannleikurinn er sá, að jafnaðarmenn hafa nú snúizt til fylgis við mjólkurlögin, af því að þeir sjá, að skynsamlega er tekið á framkvæmd skipulagningarinnar.

Ég get nú látið útrætt um mjólkursölumálið að þessu sinni, sem íhaldsmenn hafa sér til lítillar gleði eða sæmdar dregið inn í þessar umr., en sný mér þá að framkomu andstæðingaflokka stj. í kjötsölumálinu. Er þá ekki ófróðlegt að athuga fyrst, hvernig þessir flokkar hafa skipt með sér verkum til að spilla fyrir þeim lögum. Það er bersýnilegt, að það var hlutverk hv. þm. V.-Húnv. á fundunum að gera bændur óánægða með lögin, sérstaklega með verðjöfnunargjaldið og með framkvæmd laganna yfir höfuð. Hann var látinn halda því fram austur í sveitunum, að verðjöfnunargjaldið kæmi sérstaklega hart niður á þeim, sem þar byggju. En sama daginn og hv. þm. V.-Húnv. er fyrir austan, er í blöðum Sjálfstfl. veitzt að jafnaðarmönnum fyrir það að hafa samþ. verðjöfnunargjaldið, og því haldið fram, að það komi sérstaklega niður á verkamönnum í kaupstöðum. Hinir svokölluðu bændaflokksmenn gera sér far um að gera bændur óánægða austur í sveitunum með verðjöfnunargjaldið, en norður í landi reyna þeir að spilla fyrir málinu með því að halda því fram, að verðjöfnunargjaldið sé allt of lágt á kjötinu. Hinsvegar halda hv. sjálfstæðismenn því fram, að kjötverðið sé árás á verkalýðinn, það sé svo hátt. Þannig stangast þessar mótbárur þessara flokka, sem hafa skipað sér í andstöðu við þetta mál. Það er algerlega rangt hjá hv. þm. V.-Húnv., að ég hafi gefið í skyn austan fjalls, að mjólkurlögin kæmu aðallega hart niður á mjólkurframleiðendum vestanfjalls. Ég sagði, að verðlækkunin mundi í bráð eitthvað ná til framleiðenda vestan fjalls, meðan skipulagið væri ekki komið í fast horf, en ég benti líka sérstaklega á það, að þó verðlækkunin kæmi í fyrstu niður á framleiðendum vestan fjalls, þá mundu þeir vinna margfaldlega upp þann skaða, er þeir yrðu fyrir, með bættu skipulagi á mjólkursölunni, og ég undirstrikaði það, að til þess að sá árangur næðist af mjólkursölulögunum, þyrfti að vera sérstaklega góð samvinna milli beggja aðilja, seljenda og neytenda. Hv. þm. V.-Húnv. var mikið að veifa þessari gömlu sósíalistahræðu sinni, sem honum er svo tamt að flagga með hér í hv. d., með þeirri prédikun sinni um afstöðuna milli Framsfl. og Alþfl., sem hann klifar á við flest tækifæri. Ég vil nú segja það, að þessum hv. þm. ferst ekki að segja mikið út af samvinnu þessara flokka. Honum ferst það sízt af öllum að tala um undirlægjuskap, sem vitað er um, að hlaut kosningu í sinni sýslu með atkvæðum, sem hann fékk lánuð frá flokki, sem hann hefir svo þjónað dyggilega undir og legið marflatur fyrir, og sem hann að margra hyggju hefir látið brúka sig til þess að reyna að gera þingið óstarfhæft. Þannig hefir Sjálfstfl. hinn svokallaða Bændafl. til að vinna þau verk, sem hann sjálfur þykist of góður til að vinna. Ég veit ekki, hvernig einn flokkur getur legið flatari fyrir öðrum flokki en Bændafl. fyrir Sjálfstfl. í öllum málum.

Þá er það alveg rangt hjá hv. 8. landsk., að Egill Thorarensen hafi lagt til, að mjólkurlögin væru samþ. á þinginu 1933 án verðjöfnunargjalds. Það var Eyjólfur Jóhannsson, sem vildi það, en hitt var vitanlegt, að Egill var sérstaklega óánægður með að missa verðjöfnunargjaldið, vegna þess að mjólkurframleiðendur í nágrenni Rvíkur selja neyzlumjólkina hér háu verði, en framleiðendur fyrir austan fjall geta lítið notað þann markað. Þess vegna hlaut það að vera þyrnir í augum Egils Thorarensen, sem bar fyrir brjósti hagsmuni austanmanna, að missa verðjöfnunargjaldið.

Ég hygg þá, að ég hafi svarað höfuðádeilum hv. sjálfstæðismanna í þessu máli. - Viðvíkjandi þeirri fyndni, sem hv. þm. G.-K. sagði, að ég hefði sagt um hv. þm. Borgf. og hv. þm. G.-K., og hann vildi tileinka öðrum hv. þm. hér í d., skal ég ekkert þræta við hann. Ég viðurkenni það fúslega, að ég er alls ekki fyndinn maður og tel mig heldur ekki vera það; þess vegna þykir mér það mjög leitt, þegar ég verð fyrir ádeilu í því efni frá hinum djúphyggna, vitra og fyndna hv. þm. G.-K.