30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

27. mál, sláturfjárafurðir

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég á sæti í þeirri n., sem þessu máli verður væntanlega vísað til, og mun ég því ekki fara inn á einstök atriði þess. Það, sem ég vil hér segja, er út af tilefni frá hv. þm. G.-K., sem sló því fram, að við Alþfl.menn, og þá sérstaklega ég, hefðum verið á móti skipun þessa máls áður, en snúizt algerlega nú í seinni tíð. Nú vita það mörg þúsund manna víðsvegar um landið, að um skipulagningu þessara mála hefir Alþfl. rætt bæði á fundum og í blöðum fyrir löngu síðan. Og í 4 ára áætluninni, sem flokkurinn lagði fram fyrir síðustu kosningar og barðist fyrir á fundum um allt land, var sérstakur liður um skipulagningu afurðasölunnar á þann hátt, að til gagnkvæmra hagsbóta yrði fyrir vinnandi stéttirnar til sjávar og sveita. Upp úr þessu voru eftir kosningarnar gerðir samningar við Framsfl., sem að nokkru leyti koma fram í þessu frv.

Hygg ég, að ég hafi nú gert grein fyrir því, að hér er ekki um neinn snúning að ræða af hálfu Alþfl., heldur áframhaldandi stefnu.

Hv. þm. G.-K. vildi vitna í annað skylt mál, sem frv. liggur einnig fyrir þinginu um, sem sé mjólkurmálið. Kvaðst hann mundu við síðari umr. lesa upp úr ræðum mínum frá þinginu 1933, þingheimi til skemmtunar og til þess að sanna fjandskap minn gegn skipulagningu afurðasölunnar. Nú hefi ég athugað þingtíðindin að gamni mínu. Á þinginu 1933 hefi ég ekki sagt eitt einasta orð um þessi mál, og sýnir það, hvaða fleipur hv. þm. fer með. Á þingi 1932 hefi ég aftur haldið þrjár ræður um mjólkursölumálið. Og ég vil skora á hv. þm. að lesa þær upp, þegar hann fær næst tækifæri til - ég veit hann getur það ekki núna, þar sem hann er búinn að tala 4 eða 5 sinnum í þessu máli, - og benda á, að hverju leyti ég hefi skipt um skoðun síðan og að hverju leyti þau frv., sem nú eru fram borin um þessi mál, eru á móti stefnu minni og Alþfl. Það er að vísu rétt, að ég gekk á móti einstökum atriðum í mjólkursölufrv., sem fram var borið á þinginu 1932, út frá því sjónarmiði, að kaupstaðir og sveitir ættu að vera jafnréttháir aðilar við lausn þess máls og ekki mætti taka einhliða tillit til framleiðendanna. Ég benti á, að neytendurnir hefðu líku sinn rétt og dró fram ýms atriði í málinu, sem þýðingu hafa fyrir bæina, t. d. um aukinn rétt mjólkurframleiðenda innan lögsagnarumdæmis bæjanna, kúabú bæjarfélaganna, þar sem þau eru, o. fl. sem ég vil ekki eyða tímanum til að fara út í, þar sem þetta eru einungis aukaatriði. En aðalatriðinu, sem sé að hafa skipun á þessum málum, kemur glöggt fram, að ég var samþ. Hafi einhverjir snúizt í þessu máli, þá eru það aðrir en Alþfl.menn. Því í ræðu framsögumannsins, sem virtist tala fyrir hönd Mjólkurfélagsins og þeirra, sem standa á bak við hv. þm. G.-K., kom þetta fram: „Ég skal taka það fram enn, að það tilboð liggur á bak við þetta, að ef svona fyrirkomulag kemst á, þá skuli neytendur njóta þess hagnaðar, sem fengist, í lækkuðu mjólkurverði, er stafaði af þessu fyrirkomulagi“. Þarna er gengið lengra heldur en nú, því ég veit ekki betur en nokkur hluti Sjálfstfl. hafi nú, ásamt nokkrum öðrum mönnum, tekið sig til og barizt fyrir því, að allur hagnaðurinn af betra skipulagi á mjólkursölunni lenti hjá framleiðendunum einum. Þessu svaraði ég þannig: „Þá talaði hv. frsm. um, að þeir, sem gangast hér fyrir þessu máli, hefðu lofað því, að allur hagnaðurinn af þessu breytta skipulagi skyldi fara til neytenda. Ég segi fyrir mitt leyti, að mér finnst það alls ekki sanngjarnt, enda trúi ég því ekki, að það verði þannig í framkvæmdinni. Það rétta er, að báðir aðilar njóti hagnaðarins. Til hvers væru líka framleiðendur að hafa fyrir því að breyta skipulaginu, ef þeir eiga svo ekkert að fá af hagnaðinum?“ - Því er nefnilega haldið fram af mér og Alþfl. í heild, bæði þá og nú, að hagurinn af bættu skipulagi eigi bæði að koma til góða framleiðendum og neytendum. Og það var engin ástæða til þess fyrir Alþfl. að ganga á móti lausn málsins eins og það er nú fram borið, því það er í ýmsum atriðum meira tillit tekið til neytendanna en áður.