30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

27. mál, sláturfjárafurðir

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég veit ekki, hverju ég á að svara til þess, að ég hefi orðið fyrir þeim ósköpum, að hæstv. forseti kallaði mig heimskan; ég verð a. m. k. að þakka þá einstöku kurteisi. Eg sagði fyrr í dag, að jafnaðarmenn hefðu snúizt í mjólkurmálinu frá 1933. Hv. 2. þm. Reykv. vildi afsanna þetta, og taldi sig sömu skoðunar og þá. Og það er satt, að hann heimskaði sig ekkert á málinu þá, því hann tók aldrei til máls í því. En ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp nokkrar línur úr Alþt. frá 1933, hygg ég, að þær sanni mál mitt um að jafnaðarmenn hafi þá verið andvígir mjólkursölufrv. Þá farast formanni Alþýðufl. (JBald) þannig orð: „En mér finnst það ekki vera leiðin til umbóta, að taka af bæjarstj. og íbúum Rvíkur og Hafnarfjarðar það vald, sem þeim er veitt yfir skipulagi innanbæjar. En mér finnst ekki koma til mála að láta menn úr fjarlægum héruðum samþ. reglur fyrir kaupstaðina, t. d. um bein heilbrigðismál, sem heyra undir ákvarðanir bæjarstjórna. Þá tel ég það allhart að gengið, að láta þá menn, sem í kaupstöðum búa og bæjarstjórn hefir styrkt - marga hverja - til þess að efla búskap innan bæjarfélagsins, bera skatt til þess að borga bændum í Rangárvallasýslu, Árnessýslu, Skagafjarðarsýslu, Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu - og kannske lengra að - uppbót á verði á mjólk“. Og að lokum: „Ég treysti mér ekki til að greiða atkv. með þessu frv. eins og það er nú, en mun greiða atkv. dagskrártill. hv. þm. Hafnf.“.

Með þessu vildi ég hafa sýnt fram á, að form. Alþfl. eins og raunar allir þm. þess flokks - þó hv. 2. þm. Reykv. tali ekki í málinu - voru þá á móti málinu og greiddu atkv. á móti því með meiri hraða en eðlilegt er, að þeir menn viðhafi. Ég vona, að þetta nægi til að sýna fram á, að ég fór með rétt mál, er ég sagði, að Alþfl. hefði snúizt í málinu frá því á þingi 1933.