05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vil vekja athygli á till. á þskj. 269, frá hv. 9. landsk., af því að mér fannst bæði hæstv. forsrh. og hv. frsm. taka á henni of miklum vettlingatökum. Ég sé ekki betur en þessari till. sé stefnt beint á félagsskap bænda hér í Rvík, Sláturfélag Suðurlands, því að ef skylt er að láta neytendafélög fá slík leyfi, þá opnast leið fyrir fjölda manna til þess að fá kjöt sitt og sláturafurðir utan við Sláturfélagið. Eftir brtt. þarf ekki annað en að 2-3 menn slái sér saman, til þess að skylt sé að veita slíkt leyfi. Kjötsölunefnd væri bundin af lögum um þetta og gæti ekki neitað um leyfi. Ég vil benda á, að ein af ástæðunum til þess að setja varð kjötsölulögin, var einmitt sú, að þátttaka bænda í Sláturfélagi Suðurlands var ekki nógu ákveðin. Að vísu hefði kjötsölumálið ekki verið leyst fyrir því, því að Sláturfélagið hefði ekki getað takmarkað framboðið á hverjum tíma af eigin rammleik. Þessa till. hv. 9. landsk. tel ég varhugaverðan fley, sem hv. þdm. þurfa vandlega að athuga áður en þeir samþ. brtt. 269.

Ég vil skjóta því til hv. frsm. landbn. í sambandi við þá viðbót hv. Ed. við 3. gr., þar sem bannað er að kaupa fé á fæti til slátrunar án leyfis kjötverðlagsnefndar, sem ég get út af fyrir sig fallizt á að sé nauðsynlegt, þá óska ég, að sú skýring komi fram frá frsm. landbn., að þetta þýði ekki það, að kjötverðlagsnefnd eigi að amast við því, að þeir, sem hafa slátrunarleyfi, kaupi fé til slátrunar á fæti. Slík verzlun á sér víða stað, t. d. í Borgarfirði, og er aðeins fyrirkomulagsatriði í viðskiptum milli seljanda og kaupanda. Ég vænti, að það sé meining frv. að leyfa þetta, og hygg, að það sé nóg, ef sú skýring kemur fram frá hv. frsm., að kjötverðlagsnefnd eigi ekki að blanda sér inn í slíka verzlun. Hitt tel ég nauðsynlegt, að banna að nokkrir kaupi sláturfé á fæti til þess að selja það aftur á fæti til slátrunar.

Ég hreyfði því við 1. umr., að ég væri ekki allskostar ánægður með þá viðbót, sem sett var við verðjöfnunarskattinn í hv. Ed., miðað við aðstöðu ýmsra kjötframleiðenda hér í grennd við Rvík, sem hyggju við dýrari og erfiðari framleiðsluskilyrði en aðrir framleiðendur. Ég mun athuga það fyrir 3. umr., hvort ekki er ástæða til að koma fram með brtt. í þá átt að lækka verðjöfnunargjaldið. Ég mundi þó geta sætt mig við það eins og það upphaflega var í frv.