05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það verður því ljósara, sem brtt. hv. 9. landsk. er betur athuguð, að hún getur aldrei leitt til annars en óþæginda og aukins kostnaðar bæði fyrir seljendur og neytendur. Það hefir verið bent á, að sá kostnaður, sem lendir á kjötið í sláturhúsunum, er eingöngu vinnukostnaður við slátrunina.

Um álagningu á kjötið til neytenda er ekki að ræða hjá sláturhúsunum aðra en slátrunarkostnaðinn, sem er 80 aurar á kind, og þann kostnað er ekki hægt að hafa minni, nema með því að þeir, sem að slátruninni vinna, vinni fyrir minna gjald, en ég býst ekki við, að hv. flm. ætlist til þess. Ávinningur af því að stofna sláturhús neytenda gæti því enginn orðið, nema undir þeim kringumstæðum, að einhverjir gæfu sína vinnu við sláturhúsin. Hinsvegar gæti það orðið báðum aðilum til tjóns, að leyfa neytendum að reisa sláturhús, því að öðrum kosti geta þeir vitanlega ekki fengið slátrunarleyfi, því það er ekki ætlazt til þess, að fé sé slátrað í kaupstöðunum nema í góðum sláturhúsum. Nú hagar svo til, að þar eru alstaðar næg sláturhús fyrir hendi, þannig að ef farið væri að taka af þeim einhvern hluta sláturfjársins, þá yrði það til þess eins að gera rekstur þeirra dýrari; kostnaður við slátrunina yrði hærri á hverja kind. Bygging nýrra sláturhúsa þar, sem nóg slík hús eru fyrir, mundi því aðeins hafa aukinn kostnað í för með sér. Það, sem neytendur gætu grætt í þessu efni, væri það, ef þeir gætu lækkað dreifingarkostnaðinn. Sá kostnaður gæti orðið minni en hann er, og hann geta þeir minnkað með því að stofna sölufélög. Þess vegna er þessi till. hv. 9. landsk. og annað, sem færi í svipaða átt, til þess eins fallið að spilla þessu máli, og á því að fella hana. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. benti á, að tillagan gæti orðið til þess að stórskemma aðstöðu Sláturfélags Suðurlands, því hún gæti orðið til þess, að neytendur, hér ekkert síður en annarsstaðar, færu að byggja sláturhús og draga frá Sláturfélaginu, en reynslan mundi sýna, að við það yrði slátrunin aðeins dýrari, auk þess sem miklir peningar yrðu bundnir í því fyrirtæki og alveg að óþörfu. Það eina gagn, sem neytendur gætu unnið þessu máli, er að stofna félög til þess að lækka dreifingarkostnaðinn. Ég get því vel tekið undir það með hv. þm. Borgf., að till. mundi verða til stórtjóns fyrir alla aðilja, ef hún yrði samþ.