05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

27. mál, sláturfjárafurðir

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil lýsa því yfir strax, að ég mun við 3. umr. bera fram brtt. við 3. gr. frv. eins og það nú liggur fyrir. Ástæðurnar fyrir því hefi ég fært fram við 1. umr., og hirði ég því ekki um að endurtaka þær, en brtt. verður í þá átt, að leyfð verði bein sala frá framleiðendum til neytenda. Ég skal svo ekki dvelja meir við það.

Ég vildi mega taka undir mál þeirra hv. þm., sem mælt hafa með brtt. á þskj. 288, því það er bersýnilegt, að andstaðan gegn því, að félög megi rísa upp og taka fé til slátrunar og verzla með sláturfjárafurðir, gengur alls ekki í þá átt, sem er tilgangur þessa máls: að reyna að tryggja örari og betri sölu á sláturfjárafurðum og tryggja framleiðendum sæmilegt verð, heldur í þá átt að hefta söluna og leggja bann á menn, og er mjög fjarri því að geta nokkurntíma leitt til þess að gera markaðinn meiri eða betri.

Út af till. hv. 9. landsk. vil ég segja það, að ég tel hana til mjög mikilla bóta. Það er ekki svo oft sem dúfa kemur úr hrafnseggi, að það er óviðeigandi að gefa því engan gaum. Þessi till. hnígur í þá átt, eins og till. á þskj. 288, að greiða fyrir sölu sláturfjárafurða, og get ég því ekki skilið, að andstaðan gegn henni fremur en hinni till. geti stafað af neinu öðru en því, að það hafi vakað fyrir þeim hinum sömu að hefta söluna, leggja óþarfa bönd bæði á seljendur og neytendur. En þessi till. hv. 9. landsk. gefur neytendunum nokkurt frjálsræði. Það er nú mjög einkennilegt, þegar verið er með fúsum vilja og góðum undirtektum að leggja talsvert miklar kvaðir á neytendur og skuldbinda þá að taka við vöru með dýrara verði en þeir gætu aflað sér með frjálsri verzlun, til þess að mikilsverður atvinnurekstur geti borið sig, að þá sé reynt á allan hátt að gera þeim sem mest óþægindi. Það er eins og þessir hv. þm. séu ferhyrndir og hafi öll sín horn í síðu þeirra, sem eiga að kaupa þessa vöru. Þetta finnst mér óviðeigandi, og ég skil ekki, að umbjóðendur neytendanna í kaupstöðum geti forsvarað að ganga á móti þessari tillögu.

Ég þarf svo ekki að mæla meira með þessum brtt., því það gera þeir, sem bera þær fram, en ég vildi aðeins lýsa afstöðu minni til þeirra. En um brtt. þá, sem ég mun bera fram, hefi ég þegar talað við 1. umr. og ætla ekki að bæta neinu við það nú, en mun kannske rifja það upp, þegar till. kemur fram.