05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

27. mál, sláturfjárafurðir

Sigurður Kristjánsson:

Mér skildist það á hv. 9. landsk., en ég er ekki viss um, að ég hafi skilið hann rétt, að hann væri að hugsa um að láta niður falla þessar brtt. sínar, þar til við 3. umr. málsins, og að hann væri þá jafnvel líka að hugsa um að slá allmikið af þeim, þannig, að færa þessa kröfu um leyfi fyrir félög neytenda niður í heimild til þess að hafa slík félög, og eins að binda þetta leyfi við þá staði, þar sem ekki eru til sláturhús. M. ö. o., mér skilst, að hann ætli nú að gera þetta afkvæmi sitt að kaleggi strax í hreiðrinu, og þykir mér illt, að hæstv. forsrh. skuli vera búinn að reka hann svona oft og títt af hreiðrinu, að það skuli þurfa að koma fyrir, að það andlega afkvæmi, sem bezt var til stofnað, eigi að verða að kaleggi. Ég vil taka það fram, ef hann snýst að þessu ráði, að fyrirkoma þannig sínu afkvæmi, þá held ég, að ég verði að koma honum til hjálpar, eins og menn kannast við, að oft kom fyrir í gamla daga, þegar börn voru borin út, að þá komu þar að menn og tóku þessi börn til fósturs, og úr þeim gátu oft orðið efnilegustu menn. Ég mun því taka þessar brtt. hv. 9. landsk. upp sem mínar eigin till.