05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það er vissulega merkilegt mál, sem hér er á ferðinni. Og skoðun mín er sú, að eftir eðli sínu sé það hættulegt mál. Aðaltilgangur þess mun vera sá, að tryggja bændum hærra verð fyrir kjöt sitt á innanlandsmarkaði en þeir hefðu fengið, hefðu engar ráðstafanir verið gerðar. En alvarlegasta spurningin, sem vaknar hjá mönnum við athugun þessa máls, er þessi: Er hægt að ráða verði á þessari vöru, er hægt að ákveða það með löggjöf eða samtökum seljenda? Frv. gerir ráð fyrir því, að þetta sé hægt, og mér virðist sem allir hv. dm. séu á einu máli um það, að svara spurningum þessum játandi, og um það er aðeins rætt, hvert verð skuli sett á kjötið. Og allir eru sammála um það, að eigi l. að gera sitt gagn, þurfi verðákvörðunin að vera sem réttust. Og þetta er vafalaust aðalatriðið, en ekki hitt, hverjar tilfinningar neytendur bera í brjósti til framleiðenda og því um líkt. - Það á að vera hægt að reikna það nákvæmlega út, hvert verð þarf að vera á kjöti í landinu, þegar gefin eru upp viss undirstöðuatriði. - Mér skilst það á hv. frsm. meiri hl. n., að nú væru framleidd hér á landi um 500 tonn af kjöti, og þar af sé hægt að selja rúm 2000 tonn til útlanda. Þá eru eftir 300 tonn, sem verða að seljast á innanlandsmarkaðinum. Nú er það gefið mál, að þessi 3000 tonn verður að vera búið að selja áður en framleiðsla næsta árs kemur á markaðinn. Ef því er ekki svo fyrir komið, segjum sem svo, að af þessum 3000 tonnum væru 1000 eftir óseld, þá væri verr farið en heima setið. Þetta er í fyrsta sinni, sem svona l. eru sett hérna, en það er ekki í fyrsta sinni að svona l. eru sett í veröldinni. Og alstaðar hefir kreppan verið ástæðan til þeirra. Þegar ameríska bændur fór að vanta markað fyrir hveitið, báðu þeir stj. að vernda verðið. Þannig fór með kaffið í Brasilíu, en þar fóru ráðstafanir stj. í þá átt að takmarka framleiðsluna. Sömu söguna er að segja um ullina í Ástralíu, og svona mætti lengi upp telja. - Allar hafa þessar ráðstafanir mistekizt, svo að nú er vandinn mestur að sjá einhverja færa leið út úr ógöngunum. - Hingað til höfum við ekki tekið þessa aðferð upp hér á landi. Það var okkur þó í lófa lagið, þegar fiskverðið lækkaði niður úr framleiðslukostnaði. Þá var annaðhvort að reyna að selja framleiðsluna á því verði, sem hægt var að fá fyrir hana, og halda því áfram þar til allar birgðirnar voru uppseldar, með það fyrir augum, að pláss væri fyrir nýja framleiðslu, - eða þá að bíða þess að verðið hækkaði og láta birgðirnar safnast fyrir. Við tókum þann kostinn, að selja fiskinn á því verði, sem fyrir hann fékkst, án þess að spyrja um, hvort það borgaði sig í augnablikinu, í von um það, að ef framleiðsla hvers árs fyrir sig selst, fáist verðið hækkað. Ef tvöföld ársframleiðsla af fiski hefði verið boðin fram í einu, varð framboðið sennilega allt of mikið, og verðið gat farið niður úr öllu valdi. Nú gæti einhver sagt, að þetta hefði verið rétt af því að um erlenda markaðinn væri að ræða. En ef framleitt er svo mikið af kjöti, að stór hluti þess hafi engan annan markað en innanlandsmarkaðinn, er þar um nákvæmlega það sama að ræða og um fiskinn. Því segi ég það, að það eru sameiginlegir hagsmunir framleiðenda og neytenda, að kjötið seljist. Verðið má ekki vera svo hátt, að það á nokkurn hátt hefti söluna: það gæti orðið þess valdandi, að ein 1000 tonn yrðu óseld af gamalli framleiðslu, þegar sú nýja kæmi á markaðinn, og þá gæti verðið hrapað langt niður úr því, sem þurft hefði að vera. Verzlunin verður því aðeins eðlileg og greið, að framleiðsla ársins sé uppseld áður en næsta árs framleiðsla kemur á markaðinn. Það getur borgað sig fyrir framleiðendurna að setja verðið lítið eitt lægra, til þess að óseldar leifar spilli ekki fyrir sölu nýju framleiðslunnar, þegar hún kemur á markaðinn. Setjum nú svo, að salan á framleiðslu þessa árs mistakist, svo að eftir væru t. d. óseld 1000 tonn þegar framleiðsla næsta árs kæmi á markaðinn. Hverjar yrðu afleiðingarnar af því? Ég er hræddur um, að í reyndinni yrði það svo, að ríkisvaldið hefði tekið á sig meiri ábyrgð en það væri fært um að standa við. Það er ekki ólíklegt, að fram kæmu kröfur svipaðar þeim, sem ég gat um að komið hefðu í Ameríku, að ríkissjóður hjálpaði til að hindra, að eftirstöðvar fyrra árs framleiðslu yrðu til þess að fella verðið á nýju framleiðslunni niður úr öllu valdi. Mér liggur við að halda því fram, að afleiðingin af þessu fyrirkomulagi gæti orðið sú, að Alþingi yrði talið skylt að kaupa fyrra árs leifarnar eða eyðileggja þær, til þess að þær spilltu ekki verðlagi nýju framleiðslunnar. Er stj. við því búin að taka þeim afleiðingum þessara laga?

Það er vitanlega alveg rangt, sem sagt hefir verið, að það væri aðallega undir góðvild neytendanna komið, hvort varan seldist, viðskipti á slíkum grundvelli eru gersamlega vonlaus til frambúðar. Neytendur endast ekki lengi til að kaupa vörurnar af góðvild einni, ef þeir geta fengið aðrar vörur ódýrari í staðinn. Löggjöfin ræður ekki við svona viðskiptamál til lengdar. Það má nú að vísu segja, að neytendur hafi ekki úr háum söðli að detta í þessu efni, því að undanfarið hafa það verið umboðsmenn framleiðendanna, sem hafa ákveðið kjötverðið með hag framleiðendanna fyrir augum. Ég álít heppilegast, að framleiðendur ráði því sjálfir, hvaða verð þeir setja á kjötið, og að áhrif neytendanna komi aðeins fram í kaupvilja þeirra. Þeir verða að skera úr því sjálfir, hvað þeim þykir hentugast að kaupa. Neytendur hafa þar svo mikið vald, að þeir þurfa ekki meira. Ég er alveg sammála hv. þm. V.-Húnv., að framleiðendur eigi að bera alla ábyrgð á þessu. Úrlausn málsins kemur niður á framleiðendunum fyrst og fremst, og því eiga þeir að bera ábyrgðina. Ég lít svo á, að hér sé allmikil hætta á ferðum fyrir bændurna í landinu, því að það er orðið svo nú á dögum bæði í innlendum og erlendum viðskiptum, að það er kaupandinn, sem valdið hefir á markaðinum, vegna þess að framboðið er orðið of mikið, en eftirspurnin of lítil. Svo er annað, sem líta verður á. Þó að viðurkennt væri, að þessar ráðstafanir væru góðar og réttlátar, ef rétt væri farið með þær, er þó eitt mikilsvert atriði, sem gæti valdið vandræðum, en það er skipting verðsins milli framleiðenda eða úthlutun verðjöfnunargjaldsins. Þetta gæti valdið deilum, og ég tel hæpið, að ríkisvaldið taki slíkt að sér. En til þess er ætlazt samkv. frv. Hitt held ég og vona, að ekki geti orðið til tjóns fyrir þjóðarheildina, þó að það hafi sumstaðar valdið illdeilum, þegar selt er háu verði á innlenda markaðinum til þess að geta selt útlendingum með lægra verði, en ríkið tekur síðan að sér að greiða mismuninn. Það er þetta, sem á ensku er kallað „dumping“ og hefir valdið alvarlegum deilum milli þjóða. Þetta veldur kannske ekki vandræðum á þeim mörkuðum, sem við höfum. En hitt þykir mér ekki ólíklegt, að það reynist eins örðugt að framkvæma réttláta skiptingu á verðjöfnunargjaldinu eins og nú er að koma í ljós, hve örðugt er að komast hjá ranglæti í framkvæmd mjólkurlaganna. En þar horfir nú svo við, að allstór hópur manna, sem ætti að eiga forréttindi á mjólkurmarkaðinum hér í bænum, hlýtur að verða gjaldþrota vegna mjólkurlaganna. Ég vil leyfa mér að spyrja, hvort ríkið hafi í raun og veru rétt til að kippa þannig grundvellinum undan atvinnurekstri þessara manna, sem eiga sér einskis ills von. Ég held nú að vísu, að málið sé að ýmsu leyti gott, en það er eftir að gera ráðstafanir til að gera þá ánægða, sem verða fyrir alvarlegum skakkaföllum af völdum þessara laga, og ég tel það siðferðislega skyldu ríkisins að bæta þessum mönnum á einhvern hátt tjón það, sem þeir verða fyrir við það, að geta ekki stundað atvinnurekstur sinn. Ég mun fylgjast með í því, hvernig framkvæmd þessara laga verður háttað, því að það skiptir miklu máli.