05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Hv. 5. þm. Reykv. er eiginlega sá eini, sem mér virtist vera á móti þessum l., og þó er ég ekki viss um það. Það, sem hann virtist sérstaklega hræddur við, var, að verðlagið væri spennt svo hátt, að ársframleiðslan muni ekki seljast, en meira eða minna af henni safnast fyrir, og horfa því til vandræða fyrir framleiðendur. Því er ekki að neita, að slíkt getur komið fyrir, og það engu síður, þó lögin væru ekki til. Þegar sláturtíð byrjaði í haust, var óselt bæði freðkjöt, spaðkjöt og stórhöggið kjöt.

Hvernig var ekki með fiskinn í haust? Í fyrra voru birgðir 11000 smálestir, en í haust 19000, eða 8 þús. smálestum meira. Þó er aflinn í landinu minni nú. Það er nú svo, að við erum í vandræðum með að selja okkar vörur, og ekki líklegt, að úr erlenda markaðinum rætist, meðan við erum þar háðir innflutningstakmörkunum og öðrum hindrunum. Við verðum því að taka höndum saman um að auka sem allra mest markaðinn innanlands og nota, að svo miklu leyti sem mögulegt er, okkar eigin vörur. Það er vitanlega rétt, að það er hægt að spenna bogann svo hátt með verðlaginu, að salan minnki. En það virðist ekki hafa verið gert á kjötinu í haust. Skýrslur hér úr Rvík sýna, að salan hefir ekki minnkað. Aftur á móti eru líkur til, að salan á Akureyri hafi orðið minni en venjulega. En þar eru fleiri ástæður að verki en hækkandi verð á kjötinu. Þar hefir atvinna í sumar verið miklu minni en undanfarin ár, og kaupgeta manna því minni.

Hv. 5. þm. Reykv. var mikið að tala um, hvað kjötið austan fjalls væri rýrt. Það er nú svona og svona. Það er rétt, að það eru mikil áraskipti að því, hve vænt féð er. T. d. var slátrað í fyrra hjá Sláturfélagi Suðurlands 52 þús. fjár, en í haust 46 þús. En kg.tala var meiri í haust en í fyrra. Og af þessum 46 þús. fjár fór ekkert í III. fl. (PO: Fór ekkert í III. fl.?). Nálega ekkert. Ég tek þetta fram vegna þess, að því var haldið fram í Ed., að mestur hluti af kjötinu austan yfir fjall færi í III. fl. og því í miklu lægra verð en kjöt í öðrum landshlutum, sem færi aðallega í l. fl. Þetta tvennt var borið saman, en vitanlega er III. og l. fl. kjöt ekki sambærilegt. Eg hefi það eftir Helga Bergs forstjóra, að mjög lítill hluti færi í III. flokk nú í haust.

Mörgum finnst óeðlilegt að selja kjötið hærra í landinu en það selst út úr því. En þetta er ekkert sérstakt hér. Það er algengt, að vörur eru seldar hærra verði í landinu sjálfu, þar sem þær eru framleiddar, en hægt er að halda þeim í frjálsri sölu á erlendum markaði. Hvað er t. d. að segja um fiskinn? Er hann ekki seldur hærra verði hér innanlands en fæst fyrir hann með því að flytja hann út? Ég held það muni miklu. Og frá mínu sjónarmiði er ekkert við þetta að athuga. Þannig er það með flestar eða allar framleiðsluvörur í Noregi. Ef t. d. smjör safnast fyrir, eru birgðirnar heldur seldar fyrir hálfvirði út úr landinu en að lækka verðið innanlands.

Hv. þm. V.-Húnv. var að tala um að fjölga um 2 menn í kjötsölun., svo þeir yrðu 7. Átti annar að vera frá Búnaðarfélagi Íslands en hinn frá Verzlunarráði Ísl. Ég vil í þessu sambandi benda á, að um 90% af þeim mönnum, sem eru í Búnaðarfélaginu, eru einnig í öðrum þeim félögum, sem nefna menn í nefndina, og eiga þar því fulltrúa. Þessi félög eru Sláturfélag Suðurlands, Kaupfélag Borgfirðinga og S. Í. S. Það virðist því ekki réttmætt að láta þá menn fá þannig tvöfalt atkv. gegnum annað félag. Ég sé heldur eigi ástæðu til að fara að taka mann frá verzlunarráði Ísl. Þeirra verzlun með þessar vörur hefir verið svo hverfandi lítil. Það mundi bara leiða til þess, að raska því jafnvægi, sem nú er milli framleiðenda og neytenda, sem eiga sína 2 menn hvorir, með hlutlausan oddamann, eins og vera ber. Legg ég því eindregið til, að brtt. á þskj. 288 verði felld.