05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. mótmælti því, sem ég hafði sagt, sem sé, að selt hefði verið með „dumping“-verði á enskum markaði. Ég benti á, að þessi hætta vofði yfir, á meðan svo væri ástatt, að verðið innanlands væri mjög hátt, til þess að geta selt með lægra verði á erlendum markaði. Ég veit ekki, hvort eins hefir verið ástatt í Noregi. Þetta er mjög þýðingarmikið atriði og þess vert, að leidd sé athygli að því, einnig í sambandi við þessi lög.

Ég veit ekki, hvort ástæða er til þess að tala mikið um mjólkurlögin í þessu sambandi. En mér þykir leiðinlegt að láta framhjá mér fara fullyrðingar hæstv. forsrh. um það, að það sé verið að verja bændur kringum Reykjavík með mjólkurlögunum. Þetta er að hafa endaskipti á sannleikanum. Það er ekki gott að segja, hvor aðilinn mundi lifa hinn, ef til mjólkurstríðs kæmi, eins og hæstv. forsrh. hafði í hótunum, að gæti komið til mála. Fyrst hæstv. forsrh. hefir ekki gefið þessi mjólkurlög nógu snemma, til þess að útiloka möguleikann fyrir mjólkurstríði, má hann ekki beita slíkri röksemdaleiðslu gegn mjólkurframleiðendum við Rvík. Það er öðruvísi hljóðið í hæstv. ráðh. núna heldur en þegar hann var bæjarfulltrúi í bæjarstj. Rvíkur. Þá rak hann á eftir bæjarstj. með það, að hún gerði eins og unnt væri til þess að stuðla að aukinni ræktun kringum bæinn og hvetja menn yfirleitt til þess að rækta bæjarlandið. Þetta sama sögðu sósíalistar einnig þá. (Forsrh.: Það er einmitt það, sem verið er að gera með mjólkurlögunum). Nú kemur annað hljóð í strokkinn. Nú er alveg snúið við blaðinu. Það er komið aftan að þessum mönnum, og grundvellinum kippt undan framleiðslu þeirra. Slíkar ráðstafanir hefir ríkið ekki leyfi til þess að framkvæma, án þess að láta einhverjar bætur koma í staðinn, t. d. með því móti, að þessum framleiðendum verði ákveðið hærra verð. Ég vil taka það fram í sambandi við mjólkurlögin, að það er mjög mikil hætta á því, að sett verði pólitískt verðlag á vöruna. En það er dauðadómur á þessar ráðstafanir. Þetta er búið að gera með mjólkurlögin. Ég vil ekki segja, að það sama hafi verið gert hvað kjötsölulögin snertir.

Mér finnst kynlegt að heyra hæstv. forsrh. bera það fyrir sig í þessu markaðsmáli, að stærri framleiðendur umhverfis Rvík æski þess, að þessi lög nái fram að ganga. Það er undarlegt, sökum þess, að ef þeirra hagsmunir krefjast samkomulags við stærri framleiðendur, sem búa lengra í burtu, þá er þeim áreiðanlega opin leið með afhendingu mjólkur til meðferðar í Mjólkurfélagi Reykjavíkur. Það er veigamikið atriði í þessu máli, að smærri framleiðendur í nánd við Rvík. sem hafa undanfarið notið mjólkurverðsins í Rvík, séu ekki sviptir þeim fríðindum. Það yrði rothögg á þá. Það má ríkisvaldið ekki gera án þess að hæfilegar bætur komi í staðinn.

Mig langur til þess að biðja hæstv. forsrh. að svara þeirri spurningu, hvort hæstv. búnaðamálarh. hafi í hyggju að leggja það til við hv. Alþ. í haust, ef til þess er löglega ákveðin nauðsyn, að veitt verði fé til þess að kaupa eftirstöðvar af kjötbirgðum, í þeim tilgangi að taka þær út af markaðinum. Ætlar hæstv. búnaðarmálarh. að taka afleiðingunum af þessum ráðstöfunum? Ætlar hann að bera ábyrgð á því, að ríkisvaldið standi við skuldbindingar sínar og heit, sem það gefur með þessum lögum, með því að taka fjárhagslegum afleiðingum af þessum ráðstöfunum? Ég spyr að þessu vegna þess, að það hefir komið í ljós hjá hv. frsm. landbn., að hans skoðun á þessu atriði er sú, að það sé ekki tilgangur þessara ráðstafana að haga ákvörðunum svo, að allar kjötbirgðir seljist á framleiðslutímabilinu. Hann lét það í ljós, að nú væri svo komið, að nokkrar birgðir væru til í landinu, þegar ný framleiðsla kæmi á markaðinn. Hann sagði einnig, að líkindi væru til þess, að því héldi áfram og að birgðir myndu aukast. (PZ: Gæti komið fyrir, sagði ég). Nú er það nauðsynlegt, að n. komi í veg fyrir slíkt með starfsemi sinni. Það þarf enginn að halda því fram, að ekki sé unnt að selja allar birgðirnar. Það er aðeins verðið, sem verður spurningin. Það getur farið svo, að ef verðið er of hátt framan af sölutímabilinu, þá þurfi að lækka það svo mikið, að það komi seinni hluta sölutímabilsins að sök. Þannig getur því fengizt minna verð fyrir alla framleiðsluna heldur en ef verðinu hefði verið haldið hæfilegu allt tímabilið. Þetta hlýtur hv. form. kjötverðlagsn. að vera ljóst. Samt segir hann, að líklegt sé, að birgðirnar aukist í landinu. Þess vegna spyr ég, hvort hv. Alþ. ætli sér að sjá til þess, að ríkisvaldið komi í veg fyrir það, að þessar birgðir felli niður verðið á nýrri framleiðslu. - Þessu vildi ég fá svarað.

Ég vil ekki fara út í deilur um aukaatriði, en mig langar til þess að fara fáeinum orðum um þá fullyrðingu hv. frsm. landbn., að vörur seljist alltaf dýrara verði innan lands en utan. (PZ: Ég sagði algengt, en ekki alltaf). Hv. þm. kann þá ekki að lifa nema á krepputímum, því að það er augljóst mál, að þær krónur, sem fást fyrir sölu á vöru erlendis, hljóta að vera fyrst og fremst framleiðslukostnaður að viðbættum flutningskostnaði. Ef þetta kemur ekki hvorttveggja í því verði, sem fæst af erlenda markaðinum, þá er varan seld undir verði, sem er mjög óvenjulegt, og kemur aðeins fyrir á þeim tímum, þegar kaupendur hafa valdið, en ekki seljendur.

Hv. þm. V.-Húnv. spurði mig, hvort ég ætlaðist til, að allar birgðir seldust upp, þrátt fyrir það, þótt yrði að selja þær með verði, sem ekki samsvaraði framleiðslukostnaði. Ég svara þessu játandi, og það skilyrðislaust, af því að það er miklu betra fyrir framleiðendur að selja vöruna fyrir það verð, sem er hæst á markaðinum í það og það sinnið, heldur en að birgðirnar safnist fyrir og verðið hrapi svo á nýju framleiðslunni af þeim orsökum. Með því að beita fyrra ráðinu verða eldri birgðirnar horfnar, þegar nýja framleiðslan kemur á markaðinn, og þá er von um, að hæfilegt verð fáist. Skilyrðið fyrir því, að þessu verði komið í eðlilegt horf, er, að ekki safnist of mikið fyrir af gömlum birgðum. Þess vegna er það hagsmunamál fyrir þá framleiðendur, sem ekki fá kostnaðarverð. Annars má deila um kostnaðarverð. Hvert er kostnaðarverð manns, sem rær á 100 kr. báti? Hvert er framleiðsluverð þess manns? Það má deila óendanlega um það. Framleiðsluverð slíks manns er í sjálfu sér það, sem þarf til þess að halda saman líkama og sál og geta haldið áfram að fiska.

Hv. þm. V.-Húnv. misskildi mig, er hann talaði um, að ég hefði viljað láta borga þeim hærra verð, sem verri hafa aðstöðu. Þetta vil ég vitanlega ekki, þegar markaðurinn ræður verðinu og allt er frjálst, svo að hver og einn getur bjargað sér og boðið þau gæði fyrir það verð, sem kaupandi vill borga. En þegar þessi lögmál eru sett út úr „funktion“, og ríkisvaldið hefir tekið ábyrgðina í sínar hendur og ákveðið verðlagið á vörunni, þá horfir málið allt öðruvísi við. Þá er ríkisvaldið skyldugt til þess að líta á þetta líka, því að þá er ábyrgðin komin á ríkisvaldið frá framleiðendum, sem ábyrgðin hvíldi áður á. Þess vegna segi ég, að ríkisvaldið hafi tekið að sér að útdeila milli framleiðendanna því verði, sem fæst fyrir vöruna á þeim markaði, sem ríkið sjálft skipuleggur, svo að ég viðhafi þetta leiðinlega orð. Um leið og ríkið tekur þetta vald í sínar hendur, vaxa nýjar skyldur þess; það verður þá að sjá til þess, að ekki verði neinn beittur rangindum á hinum skipulagða markaði. Það er hættulegt fyrir ríkisvaldið að taka slíkt vald í sínar hendur, því að það má segja fyrirfram, að í kjölfar löggjafar þessarar hljóti óhjákvæmilega að sigla örðugleikar, sem geta orðið það vandamál, sem hvorki hv. þing né hv. stj. sér, hvernig leysa skuli.