08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

27. mál, sláturfjárafurðir

Thor Thors:

Við hv. 6. þm. Reykv. berum fram nokkrar brtt. á þskj. 355. Ein brtt. er þess efnis, að leyfð skuli sala á sauðfé til útflutnings. Það kemur að vísu ekki mikið fyrir nú á dögum, en gera má ráð fyrir, að það geti farið í vöxt, og er ekki ástæða til að sporna á móti slíku leyfi.

2. brtt. er veigameiri. Hún fer fram á að leyfa milliliðalausa verzlun, að heimila sauðfjáreigendum að selja sláturfjárafurðir beint til neytenda. Hv. þm. vita, að mjög víða hagar svo til, að bændur hafa haft sérstök sambönd ár eftir ár fyrir þessar afurðir. Sé ég ekki, að það þurfi að skemma nytsemi þessa skipulags, sem frv. ákveður, þó að þessi sambönd fái að haldast. Þegar búið er að ákveða lágmarksverð á kjöti, er engin hætta á, að slík verzlun lækki verðlagið. Bændur færu ekki að selja án milliliða fyrir lægra verð en þeir geta fengið hjá hvaða millilið í landinu, sem er. Þetta ákvæði miðar aðeins að því að auka kjötsöluna í landinu, miðar að því, að hver hola sé fyllt í markaði þessarar vöru. Ég skil ekki þá andúð gegn þessari nauðsynlegu heimild, sem fram hefir komið í Ed. og blöðum stjórnarflokksins. Það er öllum vitanlegt, að mikill fjöldi bænda í landinu hefir sérstök einkasambönd bæði í Reykjavík og öðrum bæjum og kauptúnum. Væri það aðeins til að draga úr neyzlu og sölu sláturfjárafurða, ef slík sambönd væri bönnuð.

3. brtt. okkar er nánast orðalagsbreyting. Hún felur í sér, að öllum aðilum skuli leyft að verzla með sitt kjöt, að allir skuli settir í sama bekk. Nú er svo ákveðið í l., að samvinnufélögum skuli veitt þetta leyfi, en að öðrum megi þó veita það líka. En ég tel sjálfsagt, að sömu reglur séu látnar gilda fyrir alla.

4. brtt. er á þá leið, að verðjöfnunargjaldið skuli lækkað úr 10 aurum niður í 8 aura. Held ég, að nóg sé að binda þetta gjald við 8 aura, eins og upphaflega var til ætlazt.

Hv. 2. þm. Árn. andmælti brtt. okkar, áður en við höfðum fengið tækifæri til að tala fyrir þeim. Er þetta óþingleg framkoma. Annars sagði hann ekkert mikilsvert í ræðu sinni. Skil ég ekki andúð hans gegn þessum till. okkar, sem hann sagði að væru alveg þýðingarlausar. Ef þær eru gersamlega þýðingarlausar, ætti hann og aðrir hv. þm. að geta greitt þeim atkv., þar sem þeir vita, að meiri hl. bænda óskar eftir þessu skipulagi.