08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Mér þykir heldur fyrir því að þurfa að tala meðan ekki eru komnar allar brtt., sem von er á. Ég veit um brtt., sem eru á leiðinni, en ekki komnar úr prentun, hefir ekki tekið afstöðu til þeirra brtt., sem hér liggja fyrir, eru þær flestar að koma nú fram og n. því ekki haft tækifæri til að athuga þær. Ég tala því aðeins fyrir eigin persónu.

Brtt. frá hv. 5. þm. Reykv. er meinlaus. Þó getur verið, að frá sjónarmiði sumra sé hún heldur til bóta. En ég vil benda á, að samkv. 3. gr. reglugerðar, sem gefin hefir verið út, á við ákvörðun verðsins að taka tillit til framleiðslukostnaðar og markaðsmöguleika. Meiningin því hin sama og í brtt., og því sama, hvort hún verður samþ. eða ekki.

Þá er brtt. á þskj. 347, frá hv. 9. landsk. Eins og sú till. er orðuð, sé ég ekki, að hún skemmi. Ég veit um a. m. k. 2 staði vestanlands, sem ekki hafa sláturhús, sem fullnægja ákvæðum laga, og getur því verið erfitt um slátrun. Getur vel verið, að þessi till. bæti eitthvað úr því meðan ástandið breytist ekki. En vitanlega getur það ekki gengið lengi, að ekki séu til löggilt sláturhús alstaðar þar, sem þarf að slátra fé. Held ég að það skipti því ekki máli, þó þessi brtt. verði samþ.

Þá er hér næst brtt. á þskj. 353, frá hv. þm. Snæf. og hv. 6. þm. Reykv., og að mestu samhlj. till. á þskj. 357 og 358, og að sumu leyti brtt. á þskj. 362; þó er hún dálítið frábrugðin.

Með 1. brtt. á þskj. 355 ætlast flm. til, að hægt sé án leyfis verðlagsn. að selja og flytja lifandi fé úr landi. Þetta er e. t. v. til bóta, ef sá markaður opnaðist. Má vel vera, að þetta út af fyrir sig sé til bóta, en vitanlega sitja aldrei þeir menn í kjötverðlagsn., sem mundu neita um slíkt leyfi, ef farið væri fram á það.

Þá er 2. liður brtt., að leyfa sölu beint til neytenda. Hann tel ég ekki til bóta. Það er gefinn hlutur, að því fleira fé, sem slátrað er á sama sláturhúsi, því minni verður kostnaður að tiltölu við fjárfjölda. En því minni kostnaður, sem kemur á hverja kind, því hærra verð fyrir afurðirnar. Því er ekki rétt að stefna að því að fjölga sláturstöðum. Ég veit ekki, hvernig menn hugsa sér t. d., að allir neytendur í Rvík fari að slátra hver fyrir sig.

Ég skil ekki, að hv. flm. langi til að ganga í því gorsulli. Að heimila slíka slátrun nær ekki neinni átt. Það, sem þarf að stefna að, er að hafa sláturhúsin stór og slátra sem mestu á sama stað, og leggja áherzlu á, að gætt sé fyllsta hreinlætis. En það þýðir ekki að vera að byggja vönduð og dýr sláturhús til þess að láta þau standa tóm.

Þá er 3. liður brtt. á þskj. 355. Er hann nokkuð sama efnis og brtt. á þskj. 358 og 362. Af þeim finnst mér þó brtt. á þskj. 362 langbezt. Er hún að nokkru leyti viðbót við lögin, og eins og nú er, mun hún heldur bæta en spilla. Eins og l. eru nú, er ekki ætlazt til, að ný samvinnufélög myndist á þeim svæðum, sem stór félög eru fyrir. Er það gert til þess, að félögin klofni síður - og sláturstöðum fjölgi ekki. Þó eru nú til á landinu 2 slík svæði, sem segja mætti um, að eðlilegt væri, að mynduðust á ný samvinnufélög. Því á þessi brtt. hv. 7. landsk. rétt á sér og mun ég verða með henni, því hún gefur heimild til að veita þetta leyfi., en gerir það ekki að skyldu. Hún fer því milliveg milli brtt. hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak. á þskj. 357 og brtt. hv. þm. Snæf. á þskj. 355 og frv. Ég greiði því atkv. með þessari brtt. á þskj. 362, en á móti hinum.

Þá er hér enn ein brtt. á þskj. 355, um að lækka aftur verðjöfnunargjaldið úr 10 aur. í 8. Þessari till. verð ég á móti af því kjötmarkaður erlendis er svo óviss, að ómögulegt er að segja, eða a. m. k. ekki fullyrða, að 8 aur. gjald af kjöti, sem selt er í landinu, nægi til þess að koma verðinu á útflutningskjötinu það upp, að viðunandi sé. -

Ef gera má ráð fyrir, að út verði flutt 2200-2300 tn., sem allt þarf að bæta upp með verðjöfnunargjaldi, er hætt við, að 6-8 aur. pr. kg. verði of lítið til þess, að bændurnir fái það verð, sem sanngjarnt er, miðað við innlendu söluna. Er því sjálfsagt að gefa heimild til að fara með verðjöfnunargjaldið í 10 aur., en nota hana ekki nema verð sé lágt á erlendum markaði og kaupgeta innanlands góð.

Það er ekki enn búið að mæla fyrir öllum till., en ég hefi nú sagt mitt álit um þær allar, en hefi látið brtt. á þskj. 344 og 347 liggja milli hluta.