08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal fara nokkrum orðum um þessar brtt., sem hér liggja fyrir. Ég vil fyrst og fremst minna á brtt. á þskj. 344, frá hv. 5. þm. Reykv. Við þá till. er það sérstaklega athugavert, að þar er lagt til, að verðlagsnefnd sjái um það, að verðlaginu verði þannig hagað, að kjötneyslan aukist ekki ár frá ári. Ef leggja á þann skilning í þessa till., að hún verði tekin til greina af nefndinni, þá er það ekki hægt öðruvísi en að n. eigi að haga verðlagningunni þannig, að hún verði það lág, að hún sé viss um, að kjötið gangi út. Í raun og veru er ekki annað sjónarmið fyrir n. til þess að fara eftir en þetta. Till. hnígur því í þá átt, að það eigi, þrátt fyrir það, þótt tæplega sé markaður innanlands fyrir kjöt, sem er framleitt í landinu sjálfu, samt að haga sölunni þannig, að varan gangi út, m. ö. o., að verðlagið sé sett svo lágt, að trygging fáist fyrir þessu. Þetta er vitanlega þvert ofan í tilgang laganna, og einnig brýtur þetta í bág við þá reglugerð, sem sett hefir verið til þess að ákveða eftir hvaða mælikvarða n. á að verðleggja kjötið. Í þessari reglugerð, í 3. gr., er ákvæði um það, að kjötsölunefndin ákveði verðlag á sauðakjöti o. s. frv. með tilliti til framleiðslukostnaðar og markaðsmöguleika. Það er þetta tvennt, sem verður að reyna að taka tillit til. Þetta er sá grundvöllur, sem n. álítur, að þetta mál eigi að byggjast á, og sem hefir verið notaður á þessu hausti. Þessi till. brýtur því beinlínis í bága við tilgang þann, sem felst í lögunum, sem n. hefir lagt línur að. Ég legg til, að þessi till. verði felld.

Næst er till. á þskj. 347, frá 9. landsk. Eins og þessi till. liggur fyrir, fæ ég ekki betur séð en að hún sé meinlaus fyrir framkvæmd kjötlaganna. En það er ekki hægt að neita því, að á einstaka stað getur það komið fyrir, og hefir komið fyrir, að nokkuð margir eru saman komnir, og þá er óþægilegt að þurfa að sækja kjöt og víða að sér sláturafurðum í næsta sláturhús, því að það getur verið hætta á, að varan skemmist á slíkum flutningum. Þessi till. hefir við sanngirni að styðjast, og vil ég mælast til þess, að hún verði samþ. eins og hún liggur fyrir.

Nú hefir það komið hér fram í þessari hv. d., sem við aðrir erum mótfallnir, sem sé stofnun samvinnufélaga bænda til viðbótar, og að það sé fullkomin rangsleitni gagnvart samvinnufél. bænda að neita þeim um að stofna samvinnufélög, til þess að slátra og selja slátrið með sínu verði. Þessi röksemdaleiðsla er röng, vegna þess að sláturhús eða kaupfélag, sem hefir sláturleyfi, getur sett upp víðar á sínu svæði sláturhús samkv. fengnu leyfi, því að það er ekki bundið við, að ekki megi fjölga sláturhúsum, heldur er það bundið við það, að ekki megi fjölga samvinnufél. á því svæði, sem samvinnufélög eru fyrir á. Þess vegna er það ekki rétt röksemdafærsla, sem kom fram hjá hv. þm. A.-Húnv., að hér væri líku saman að jafna. Það þarf alls ekki að valda neinum óþægindum fyrir framleiðendur, þó þeir reki fé sitt í sláturhús þar, sem sláturhús er fyrir hendi, þó að það sé hinsvegar óþægilegt fyrir neytendur að þurfa að sækja sláturafurðir þangað. Þess vegna er þessi till., sem fer fram á það, að það sé skylda að veita samvinnufélögum sláturleyfi, engin mótsögn, hvort sem hún verður felld eða samþ. M. ö. o., í landinu hafa skapazt samvinnufélög, sem nægja til þess að taka við sláturafurðum og annast sölu þeirra; og það var þeim mönnum, sem sömdu þessi lög, vel kunnugt um. Þessi félög eru stofnuð af bændum sjálfum, og þeim hefir verið raðað niður, eftir því sem bezt hefir verið fyrir þá að reka fé til slátrunar.

Þegar talað er um það ófrelsi, sem á að vera fólgið í því að ekki megi stofna fleiri samvinnufélög bænda, þá er það ekki mælt af heilum hug, vegna þess að reynslan hefir alltaf verið sú, að þar, sem slíkt hefir komið fyrir, að mörg samvinnufélög hafa verið á sama stað, hefir það alltaf leitt til hins verra fyrir samvinnufél. sjálf og bændur. Það hefir kostað samkeppni milli þeirra, sem ekki hefir alltaf verið sem bezt, vegna þess að félögin hafa stundum verið stofnuð til höfuðs öðrum af pólitískum andstæðingum, og þannig myndast oft slæm aðstaða, sem hægt væri að nefna dæmi um. Þess vegna er þessi till. ekki borin fram af heilum hug. Þeir, sem hafa því samþ. að setja þetta í l., vita mæta vel, að samvinnufél. sjá um slátrun fyrir bændur, og fyrirkomulagið, eins og það nú er í heild sinni, er betra, enda hefir reynslan sýnt það á undanförnum árum.

Till. hv. 7. landsk. fer meðalveg. Hún gengur í þá átt, að kjötsölunefndin geti, undir einstöku kringumstæðum, leyft stofnun nýrra félaga á sama svæði, ef um leyfi hefir verið sótt til þess. (JS: Það er ekki leyfi til þess að stofna samvinnufélög). Það þarf leyfi n. til þess að stofna slík samvinnufélög. Það mætti því segja, að n. réði því, hvort 2 eða fleiri félög komu á sama stað, sem gæti orðið hvort öðru til haga. Að svo komnu vil ég ekki láta í ljós afstöðu mína til þessarar till.

Ég hefi hugsað mér, vegna þess að því hefir verið lýst yfir hér, að till. sé borin fram í samráði við formann kjötverðlagsnefndarinnar (JS: Form. landbn.), já, en hann er varaformaður kjötverðlagsnefndar, og ég mun því leita til n. og athuga, hvað hún álítur mikla þörf á þessu.

Viðvíkjandi því að lækka 10 aura gjaldið niður í 8 aura, þá hefir hv. þm. V.-Húnv. fært svo góð rök gegn því, að ég sé ekki ástæðu til þess að endurtaka þau. Þetta hefir sömuleiðis verið tekið mjög rækilega fram í Ed. og bent á það, að þetta 10 au. tillag er fyrst og fremst til hagsbóta fyrir þá, sem selja á Rvíkurmarkaðinum, til þess að koma í veg fyrir, að kjöt utan af landi komi og eyðileggi markaðinn fyrir þeim, sem hér selja. Það sýnist rangsleitni að halda þeim frá markaðinum, er búa fjær Rvík, en geta þó komið kjöti sínu á markaðinn, og láta þá þannig búa við verðlag, sem er 20-30 au. lægra á hvert kg. Með slíku móti er ekki hægt að halda skipulaginu uppi.

Þetta 10 au. tillag er fyrst og fremst gert fyrir nágrenni Rvíkur. Það virðist því vera nokkur misskilningur hjá hv. þm., að beita sér gegn þessu, þvert ofan í hagsmuni þeirra manna, sem þeir hafa þegið umboð sitt af. Ég vil fastlega leggja til, að þetta 10 au. gjald haldist, því að það stefnir að því að halda uppi skipulaginu.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 355 er það að segja, að það hefir verið ákaflega mikið „agiterað“ með henni bæði á fundum og í blöðum andstæðinga okkar, og því bein ástæða til þess að minnast á hana. Ég mun þó eigi verða langorður um hana, vegna þess hve framorðið er.

Menn tala um hagsbætur af beinu sölunni, og hvað mikill hagnaður hún sé neytendum. En hvað græðist á henni? Allur kostnaðurinn, sem nú leggst á kjötið við slátrunina. 5-6 au. á kg., helzt þrátt fyrir beina sölu. Hjá honum verður ekki komizt. Mér hefir verið bent á það, að í einum kaupstað hér á landi hafi verið stofnað neytendafélag, en reynslan hafi orðið sú, að kjötið hafi orðið 20% dýrara en í sláturhúsinu á sama stað. Þegur talað er um beina sölu, má það ekki gleymast, að neytendur geta farið í sláturhúsin og keypt þar kjöt án álagningar. Neytendur geta því sparað sér þá 15 au., sem það kostar að deila kjötinu út gegnum búðirnar í Reykjavík. En það er annað, sem er varhugavert við beinu söluna, og það er það, sem bent var á í Ed., að það er hætt við, að hún verði misnotuð, til þess að selja kjötið öðru verði en það er selt gegnum félögin.

Þar sem markaðurinn er ,.blandaður“, eins og kallað er, t. d. á Akureyri, er helmingur kjötsins seldur til útlanda, en helmingurinn á innlendum markaði. Segjum, að verðið á erlendum markaði sé 60-70 aur. á kg. en innanlands 1.10 kr. kg. Meðalverð verður þá um 90 au. á kg. Afleiðingin er sú, að það borgar sig fyrir bændur, sem hafa ekki von um að koma kjötinu út á innlendum markaði, að selja kjöt sitt fyrir 1.00 kr. kg., þ. e. 10 au. hærra heldur en meðalverð á erlendum og innlendum markaði.

Viðvíkjandi öðrum brtt., er hér liggja fyrir, sé ég ekki, að nein þeirra sé til bóta nema brtt. hv. 9. landsk. Ég legg því til, að þær verði allar felldar nema brtt. hv. 9. landsk. Um brtt. hv. 7. landsk. mun ég tala og taka afstöðu til hennar, er ég hefi talað við kjötverðlagsnefndina um það, hvort þörf sé að hafa heimild til þess að veita undanþágur fyrir sérstök samvinnufélög, sem kunna að verða stofnuð hér eftir.