08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

27. mál, sláturfjárafurðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er tiltölulega fá orð, sem ég hefi að segja að þessu sinni; þó vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. Borgf. út af svari hans til mín um það, að kjötframleiðendur í nágrenni Rvíkur hefðu meiri rétt til markaðarins hér heldur en aðrir. Ég hélt því fram, að svo væri ekki, og ég stend við það. Hv. þm. vildi halda því fram, að það hefði verið skoðun mþn., að þeir, sem fjær byggju innlenda markaðinum, hefðu ekki eins mikinn rétt til hans og hinir, sem byggju í grennd við hann, af því að þeir, sem fjær byggju, ættu ekki að fá eins hátt verð, og það væri svo sönnun fyrir því, að þeir hefðu minni rétt. En þetta er alveg rangt ályktað hjá hv. þm. Verðmunurinn stafar af því, að þeir, sem fjarri búa, hljóta að kosta dýrari flutning á vörunni á markaðinn. Þegar verið er því að reikna út verðuppbótina, á að miða verðið við vöruna á þeirri höfn, sem hún er stödd á, þannig að það verður þeim mun lægra, sem það mundi kosta að flytja hana þaðan á markaðinn hér í Rvík. Í þessu liggur það, að þeir, sem fjær búa, eiga að fá lægra verð, en ekki í hinu, að þeir hafi minni rétt en aðrir. Það hlýtur að vera auðvelt að reikna það út, hver sá verðmunur á að vera. Þó vil ég taka það fram strax, að það er ekki réttur mælikvarði á verði á því kjöti, sem flutt er í september til Rvíkur á bílum lengra að, því með þeim flutningi hefir náðst annað, miklu hærra verð hér í Rvík heldur en það, sem gildir er líður á haustið. Það er ekki rétt að hafa verðmismuninn sem nemur flutningskostnaðinum á kjötinu. En vitanlega er það ekki nema nokkur hluti af því kjöti, sem þessi félög mundu flytja á markaðinn, ef hann væri opinn.

Hv. þm. hélt því fram, að þeir, sem fjarri byggju, hefðu ekki möguleika til þess að koma kjötinu á markaðinn. Það er ekki rétt. Þeir hafa margir hverjir frystihús og geta flutt það hingað suður jafnóðum og þörf krefur (PO: Ég átti við þá, sem söltuðu). Það er mikið notað af saltkjöti hér í Reykjavík. En jafnvel þó að enn séu nokkur félög, sem ekki hafa aðstöðu til þess að koma kjötinu frystu á markaðinn, þá hafa þau möguleika til þess að koma upp frystihúsum, ef þau vilja nota innlenda eða útlenda markaðinn fyrir frosið kjöt.

Hv. þm. sannaði einmitt, hvað þessi innlendi markaður er mikil almenningseign, að þeir, sem næstir búa og njóta markaðsins, eiga að borga fyrir það, að aðrir komi ekki með sína vöru og eyðileggja markaðinn fyrir þeim. Hefðu þeir ekki þurft að borga, þá ættu þeir rétt til markaðsins, en einmitt það, að þeir þurfa að kaupa hann, sannar, að þeir hafa ekki haft einir rétt til að nota þennan markað, enda er það svo í frjálsum viðskiptum, að það er opin leið fyrir hverja verzlun, hvar sem er, að bjóða sína vöru, alveg eins og Akurnesingar og Reykvíkingar koma norður fyrir land og fiska síld þar.

Þá sagði hv. 6. þm. Reykv., þegar hann talaði fyrir sinni till., að það væru svo margir menn, sem hefðu slátrað heima sínu fé og selt sjálfir neytendunum, og að þeir myndu verða hart úti af völdum þessara laga, ef þeir fengu ekki að gera það áfram. Nú er komið ákvæði um þetta inn í 3. gr. frv. við meðferð þess í Ed., eins og hv. þm. Borgf. gat um, og ég sé ekki unnað en kjötverðlagsnefndin hafi heimild til þess að nota það ákvæði gagnvart þeim mönnum, sem erfiðasta aðstöðu hafa til þess að koma sinni vöru á markaðinn á annan hátt, og jafnvel þó að þeir hafi möguleika til þess og sæmilega aðstöðu, þá hefir n. vald til þess að veita þeim þetta leyfi áfram, og ég hygg, að n. hafi framkvæmt það svo á síðastl. hausti. Ég held, að formaður þeirrar n. hafi gert allt, sem hann gat, til þess að greiða úr þessu og láta sem minnstan árekstur verða út af þessu. En hitt játa ég, að geti verið, að n. hafi ekki gengið eins langt í þessu eins og einstaka manni hefði fundizt þörf á.

Hv. þm. hélt því fram, að það væri þyrnir í augum þm., að menn væru ekki frjálsir með viðskipti, en þetta er alls ekki rétt, í það minnsta í því máli, sem hér er um að ræða, því að hér er um knýjandi nauðsyn að ræða, sem menn verða að ganga inn á, hversu mjög sem þeim er óljúft að ganga inn á truflun í viðskiptalífi manna. Hér er aðeins verið að gera ráðstafanir til þess að bjarga framleiðslu bændanna, og ég vil segja í sambandi við orð, sem hér hafa fallið á milli manna, að hér væri um vissa „agitation“ að ræða á bak við eina till. í þessu máli, að það á að leggja til hliðar alla pólitíska flokkadrætti, þegar um svona mikið nauðsynjamál bændanna er að ræða. Það er ekki leyfilegt að berjast fyrir hagsmunamálum eins héraðs á kostnað annars, þegar á að hjálpa bændum í heild. Það getur aldrei orðið til annars en ófarnaðar fyrir bændur, því að það kemur til leiðar óánægju með lögin, ef sumir fara betur út úr þessu á kostnað annara. Þess vegna verður að sneiða hjá allri slíkri hagsmunastreitu vissra héraða. Það verður að hugsa um allt landið í heild, og það er ekki hægt á annan hátt betur en að leggja rækilega niður fyrir sér t. d. um verðjöfnunargjaldið, hvað það þarf að vera hátt, til þess að halda skipulaginu uppi, án þess að hægt sé að sanna með fullum rökum, að misræmi sé á milli einstakra héraða. Það þýðir ekki að færa fram þær ástæður, að eitt hérað hafi rýrara fé en annað. Það verður að bíða eftir þeim tíma og tækifærum, þegar farið verður að skipuleggja framleiðsluna í landinu. Ef slíku heldur áfram sem nú er, þá er óhjákvæmilegt að gera eitthvað í þá átt. Þá þarf að taka sauðfjárræktina þeim tökum, að hún sé stunduð í þeim héruðum, sem bezt skilyrðin hafa til þess atvinnuvegar, og aftur á móti kúabú aukin þar, sem skilyrði til þess eru fyrir hendi.

Því hefir verið slegið hér fram, að það hefði verið álit mþn., að verðjöfnunargjaldið mætti ekki vera hærra en 8 aurar. Ég hefi skýrt frá því hér áður, að því hefði verið haldið fram í n., að verðjöfnunargjaldið mætti ekki vera minna en 10 aurar. Að það varð undir í umr. og afgreiðslu málsins í n., kom til af því, að óheppilega mikið tillit var tekið til þröngsýnna manna í nærliggjandi sveitum, sem þótti það of þungur skattur á sér, og að sumu leyti af því, að of mikið tillit var tekið til þeirrar „agitationar“, að verðjöfnunargjaldið kæmi sem aukinn neyzluskattur á neytendur í Reykjavík. Ég vildi ekki taka tillit til neins þessa, heldur aðeins, að lögin næðu tilgangi sínum.