14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal geta þess, að þegar mál þetta var til umr. í Nd. í síðustu viku, lét ég þess getið, að ég hefði þegar látið sérfróða menn athuga markaðshorfurnar á ísl. kjöti á erlendum markaði og beðið þá að gera tillögur um, hvernig bezt yrði ráðið fram úr þeim verðmismun, sem vænta mætti. Við ræddum síðan málið, og varð sú niðurstaðan, að eðlilegast væri að láta frekari aðgerðir bíða þingsins í vetur, því að þá sést betur, hvernig sölunni reiðir af. Ég lít svo á, að heimildir af þessu tægi, sem till. fer fram á, séu gagnslitlar. Það þarf þá a. m. k. að sjá jafnframt fyrir peningum til að greiða þau útgjöld, sem samþykkt slíkra tillagna hefir í för með sér. Þessar heimildir hafa tíðkazt nokkuð undanfarið, en reynzt gagnslitlar. Ég get bent á, að lítið gagn mun hafa orðið af heimild um styrk til mjólkurbúa og til verðuppbótar á kjöti í gildandi lögum. Fyrrv. stj. mun ekki hafa greitt þá styrki, og skyldi hún þó við ríkiskassann tóman. Stj. lítur svo á, að þegar slíkar heimildir eru gefnar án þess að ætla fyrir þeim útgjöldum í fjárl., þá sé ekki hægt að greiða slíka styrki nema afgangur sé í ríkiskassanum. Þessi till. er því ekki nógu vel undirbúin til þess að hægt sé að setja hana í lög. Ég mun því leggja til, eins og ég hefi áður sagt, að þetta verði tekið til athugunar á næsta þingi, og þá séð fyrir tekjulið til að standast þau útgjöld, sem af þessu leiðir. Ég þarf að fara af fundi rétt strax og mun því ekki orðlengja þetta, en legg til, í samræmi við það, sem ég hefi þegar sagt, að brtt. verði felld. Ég hygg, að máli þessu verði betur borgið með því að fresta þessum ráðstöfunum til næsta þings og ganga þá frá málinu á tryggilegan hátt.