14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

27. mál, sláturfjárafurðir

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég verð að játa, að ég varð fyrir vonbrigðum af hendi hv. 1. þm. N.-M. Hann breiddi faðminn svo ástúðlega út á móti mér í fyrstu, að ég hélt, að hann myndi samþ. till. mína af öllu sínu hjarta. Hann var mér algerlega sammála um það, að ástandið væri óviðunanlegt. Svo segir hann, að heimildin sé gagnslaus. Ekki var hún gagnslaus í Sundhallarmálinu. Þá stóð ekki á peningum. Hann talaði einnig um, að ekki væri fé til í ríkissjóði. Á alltaf að gera ráð fyrir tómum ríkiskassa, þegar um slíka heimild er að ræða? Það hefir verið bent á það af öðrum hv. þm., að það væri góð regla að hafa sérstaka heimild í lögum, sem hægt væri að taka tillit til við samningu fjárlaga. En ef hafa á eintóma fjárlagaheimild, þá eru það stopul ákvæði; og það er betra að breyta því en að breyta lögunum.

Hvers vegna voru sett sérstök lög um hlutaruppbót til þeirra, sem mest báru úr býtum síðasta síldveiðitíma? Hvers vegna nægði þá ekki fjárlagaheimildin?

Hv. þm. talaði um, að orðalag till. væri óákveðið. Það er nógu ákveðið, ef hv. stj. er nógu dómbær til þess að skilja, að heimildina skuli taka samkv. orðalagi brtt.

Hv. þm. sagði ennfremur, að brtt. kæmi seint fram. Það stafar af því, að menn vonuðu í lengstu lög, að úr kjötsöluhorfunum á enska markaðinum mundi rætast.

Að frv. þyrfti að fara aftur til Nd. og jafnvel til Sþ., tel ég ekki hættulegt fyrir lögin sjálf.

Hv. þm. eru ekki alltaf sparir á tímann, og ekki heldur stj.fl., svo að það er ekki nein ósköp, þótt skjóta þyrfti á stuttum fundi í Sþ. Þá stæði ekki á að samþ. lögin sem heild.