14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 747 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þessir fyrrv. ráðh. vita sjálfsagt mætavel, hvernig hagur ríkissjóðsins er. Þeir eru báðir að tala um, að það sé ekki annað en að búa til heimildir. Hvernig var þetta í þeirra ráðherratíð? Hvernig var ástatt fyrir ríkissjóði þá? Ég hygg, að það hafi verið svipað þá eins og nú.

Hv. 10. landsk. var að tala um, að ég hefði komið með útbreiddan faðminn á móti sér og svikið sig svo. (ÞBr: Það sagði ég ekki). Já, það er siður sumra manna að breiða út faðminn. Hv. þm. breiddi út faðminn á móti þessu máli, en mér finnst till. hans gagnvart málefninu ekki eins vinsamlegar allar. Ég álít till. hans um framkvæmd þessara kjötlaga til ills fyrir málið, hefði þeim verið sinnt. Það er rétt, sem einhver þm. sagði, að hefði verið farið eftir till. hv. 10. landsk., þá hefði málið strandað.

Ég vil nú ekki eyða fleiri orðum í þetta pex. Það kemur á sínum tíma í ljós, hverjir bezt duga þessu máli. Það hefir mesta þýðingu fyrir málið.