19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki fara mikið út í efnisatriði þessa máls; það hefir svo oft verið gert í sambandi við þau einkasölufrv., sem fyrir þinginu liggja. En þó langar mig til að segja það út af síðustu orðum hv. frsm. meiri hl. fjhn., þegar hann var að tala um, að ekki væri ástæða til fyrir þá, sem yfirleitt eru á móti einkasölum, að vera að fjandskapast við þetta litla frv., og að ekki væri ástæða til að kalla þá sósíalista, sem myndu vilja styðja það, að mér finnst ekki rétt að viðhafa slíkt orðalag, þegar tekið er tillit til þess, að þið rignir nú yfir þingið frv. um einkasölur. Ef aðeins væri um þetta eina litla frv. að ræða, gæti komið til þeirra, sem yfirleitt eru á móti því að taka upp einkasölur, að vera stilltari og viðráðanlegri í umr. heldur en þeir virðast nú vera. En það er rangt að tala um þetta frv. sem það eina, sem beinlínis er hættulegt í stefnu hv. meirihl.-flokka á Alþingi.

Það, sem mig aðallega langaði til að segja, er það, að svona litlu frv. finnst mér að hefði mátt a. m. k. sýna þá alúð að orða það betur en gert er. Ég er alveg undrandi yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli skila svona litlu frv. eins illa orðuðu og þetta er. Og n., sem farið hefir með málið, virðist ekki hafa tekið eftir þessu heldur. Bendir þetta allt á það, að ekki hafi mikið verið um málið hugsað. Ég vil t. d. benda á niðurlag 3. gr. Þar stendur, að stj. ákveði með reglugerð meðferð birgða af eldspýtum og vindlingapappír, sem fyrir hendi kunni að vera í janúar 1935. „Fyrir hendi kunna að vera“! Hvaða mál er þetta? Og í 4. gr. frv. segir: „Á vindlingapappír skal tóbakseinkasölunni heimilt að leggja jafnmikið sem hún telur heppilegt“. - „Jafnmikið sem“, hvað þýðir það? Ekki er það íslenzka, svo mikið er víst. Í 7. gr. stendur, að kostnað af vörusendingum innanlands eigi viðskiptamenn að greiða, en áður er búið að segja, að álagningu einkasölunnar skuli miða við verð vörunnar, kominnar í hús hér á landi. Þetta er mjög grautarlegt orðalag, og tilgangur þessara ákvæða skilst ekki af þessu orðalagi.

Ég vil beina eindreginni ósk til meiri hl. hv. fjhn., að hún lagi orðalag frv. fyrir 3. umr.

Þótt frv. sé lítið, er engin ástæða til að búa það svo út, að meira að segja orðalagið gangi á „nervana“.