19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Það er mesti misskilningur hjá hæstv. forseta, að þeir þm., sem leggja til, að frv. verði fellt, megi ekki ræða málið almennt við 2. umr. þess. Hjá því verður nefnilega ekki komizt, og því hefi ég nú talað almennt um mál þetta við þessa umr. Hæstv. forseti fann heldur ekkert að því við mig; það var ekki fyrr en hv. 6. þm. Reykv. fór að tala, að hæstv. forseti fann sig knúðan til þess að grípa fram í gang umr. og biðja þm. að tala um einstakar gr. frv. (Forseti: Ég vil benda hv. 3. þm. Reykv. á það, að þótt ég umberi þetta hjá einum þm., og víki þar með frá settum reglum, geri ég það auðvitað ekki, þegar fleiri þm. ætla að fara að ganga á lagið og ræða málin almennt við 2. umr. - 23. gr. þingskapa mælir svo fyrir, að við 2. umr. skuli ræða efni hinna einstöku gr. Hér er því ekki um neinn misskilning frá minni hendi að ræða, eins og hv. 3. þm. Reykv. hélt fram). - Jú, þetta var tómur misskilningur hjá hæstv. forseta. Hæstv. forseti veit, að það er föst þingvenja, ef um er að ræða ágreining um mál, sem líklegt er að gangi fram, að sú meðferð sé höfð, sem við hv. 6. þm., Reykv. höfum haft.

Viðvíkjandi orðalagi frv. vil ég benda á það, sem segir í 1. gr., að „ákvæði l. þessara um eldspýtur taka eigi til skipa“ o. s. frv. Það er auðvitað ekki meining höfunda frv., að skip séu búin til úr eldspýtum. Meiningin er auðvitað, að ákvæðin taki ekki til eldspýtnabirgða í skipum. En orðalagið er óheppilegt.

Af ástæðum, sem ég hefi þegar tilgreint, hefi ég ekki ástæðu til að gagnrýna frv. frekar í einstökum atriðum, þar sem ég hefi lagt til, að það yrði fellt. Hitt er annað mál, að ýms atriði eru þannig, að ég hefði kosið að fá þeim breytt, ef frv. skyldi samt sem áður ná samþykki. Mun ég því við 3. umr. neyðast til að brjóta í bág við skoðanir hæstv. forseta og taka frv. til meðferðar í einstökum atriðum. Verður þá úr því skorið, hvort frv. verður samþ. eða ekki, og kemur þá til kasta andstæðinga þess að koma að lagfæringum sínum, ef samþ. verður. - Ég tek þetta fram til þess, að hæstv. forseti hafi tíma til að athuga það vandamál, hvernig fara á með okkur, sem þá verðum til þess að brjóta þingskapareglur.

Það var gott að fá upplýsingar um það frá hv. frsm. meiri hl. n., hverjar þær tekjur væru, sem vonast væri eftir af sölu vindlingapappírs og eldspýtna. Hann kvað þessa tekjuvon nema 40 þús. kr. Tók hann það fram, að þessar 40 þús. kr. myndu þó ekki nást nema heildsöluálagning hækkaði til muna. Væri reyndar ekki skaði að því, þar sem smásöluálagning er svo há, allt upp í 100%, að hún mætti vel skerðast. Kann það vel að vera, að hægt sé að skerða smásöluálagningu á þessar vörur. En á það verður þá jafnframt að benda, að þetta hlyti að leiða til þess, að álagning á aðrar vörur, sem verzlunarfyrirtækin selja ásamt þessum, myndi hækka. Fyrirtækin verða sem sé að hafa vissar tekjur til þess að geta staðið straum af rekstri sínum, og þær tekjur, sem af þeim yrðu teknar með lækkaðri álagningu á þessar vörur, yrðu þau að fá aftur með aukinni álagningu annarsstaðar. Með þessari álagningu á óþarfavörur er beinlínis stefnt að verðhækkun nauðsynjavaranna. Hinsvegar gerir frv. ráð fyrir álagningu, sem nemi allt frá 25% upp í 100%. Væri gaman að vita, hvar á milli 25 og 100% sú álagning á að liggja, sem ætlazt er til, að gefi 40 þús. kr. tekjur. Og ef fara á að leggja allt að 100% á þessar tegundir í heildsölu, þá fer að verða vafasamur sá ávinningur, sem hv. frsm. meiri hl. talaði um og fólginn átti að vera í því, að með samþykkt þessa frv. yrði létt af mönnum öðrum sköttum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þessar einkasölur væru ekkert séreinkenni á jafnaðarmönnum. Nei, það er nú svo, að hver dregur dám af sínum sessunaut. Þessi stefna jafnaðarmanna hefir eitrað svo gróflega út frá sér, að nú ganga um öll lönd þessir andlegu rauðu hundar, sem eru ekki annað en afleiðing af kenningum jafnaðarmanna. Hefir þessi faraldur sýkt ýmsa mæta menn, eins og t. d. hv. þm. V.-Ísf., og er ástæða til að harma það, þegar slíkir menn verða öðrum eins faraldri að bráð. Jafnaðarmenn hafa nú einu sinni tekið sér þetta að stefnumáli, þó að það sé ekki upphaflega frá þeim komið og aðrir hafi áður verið uppi með slíkar kenningar. Yfirleitt er sósíalisminn hvergi nærri eins frumlegur og þeir vilja vera láta. Eru það að mestu fornar kenningar, færðar í nýjan búning. En hitt er vitað, að allt það böl, er nú gengur yfir heiminn, er að meira eða minna leyti afleiðing af þeim faraldri, sem þessir rauðu flokkar, meira eða minna kommúnistískir í kenningum sínum, hafa útbreitt.