19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Forseti (JörB):

Fyrir afgreiðslu þessa máls skiptir raunar ekki miklu ágreiningur okkar hv. 3. þm. Reykv. um þingsköp. En hugulsemi var það af hv. þm., sem skylt er að virða við hann, þegar hann lýsir yfir því, að hann ætli við 3. umr. að ræða málið almennt, en það er þingsköpum samkvæmt. (JakM: Ég sagðist mundu ræða málið í einstökum atriðum!). Ef svo er, þá er það alveg öfugt við þingsköp. Skilst mér enga nauðsyn bera til þess upp á afgreiðslu málsins að haga umr. þannig. Skoða ég þetta fremur sem gleymsku hjá hv. þm. en svo, að hann vilji brjóta í bág við þau lög, sem Alþingi hefir sett sér.

Í 21. gr. þingskapa segir, að mál skuli ræða almennt við 1. umr., 22. gr. segir, að við 2. umr. skuli ræða frv. í einstökum gr., en í 23. gr. er sagt, að við 3. umr. skuli ræða efni frv. og í heild. Vona ég, að hv. þm. kynni sér nánar þessi ákvæði þingskapa.