19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

16. mál, eldspýtur og vindlingapappír

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Ég held, að ég kunni þessi ákvæði þingskapanna hér um bil eins vel og hæstv. forseti en ég veit auðsjáanlega betur en hann, hvernig þeim er framfylgt. Vil ég því taka hann í stutta kennslustund þessu viðvíkjandi.

Ákvæðin eru miðuð við normal meðferð mála, þ. e., að málið gangi fram og að ekki verði um það ágreiningur. En þetta hlýtur að snúast við, og er föst þingvenja, að það snýst við, þegar ágreiningur verður um mál. Eru þá frv. rædd almennt við 2. umr., en af því leiðir að sjálfsögðu hitt, að við 3. umr. koma andstæðingar frv. með aths. og brtt. við einstök atriði. Því er það, að ég lýsi yfir því, að ég muni við 3. umr. þessa máls ræða það í einstökum atriðum. Þetta veit hæstv. forseti vel, að er föst þingvenja.